Ráðgjafar í söluferli Íslandsbanka lögðust gegn hugmyndum um að greiða eigið fé bankans umfram kröfur í ríkissjóð fyrir í skráningu bankans á markað. Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um eignarhald ríkisins í bönkunum, mat umfram eigið fé Íslandsbanka um 58 milljarða króna fyrir útboðið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur skilað til Alþingis um söluferli og skráningu Íslandsbanka. Bjarni hafði óskað eftir því að arðgreiðsluleiðin yrði könnuð fyrir útboðið.
Íslandsbanki var skráður á markað síðasta sumar en samhliða því seldi ríkið 35% hlutur í bankanum á 55 milljarða króna. Frá lokum útboðsins hefur hlutabréfaverð í Íslandsbanka hækkað um 64% og virði 65% hlutar ríkissjóðs sem eftir stendur hefur því hækkað úr 103 milljörðum króna í 168 milljarða króna.
Í útboðinu voru hlutirnir seldir á 79 krónur á hlut sem samsvaraði um 0,86 krónum fyrir hverja krónu af bókfærðu eigið fé bankans. Með hækkun á gengi bréfa bankans síðan stendur markaðsvirði bréfa bankans nú í 1,25 krónum fyrir hverja krónu af eigið fé.
„Var það niðurstaða þeirra að ein af lykilfjárfestingarástæðum fagfjárfesta væri umfram eigið fé," segir í skýrslunni um mat ráðgjafa í söluferlinu.
„Enn ríkti almennt óvissa um áhrif kórónuveirufaraldursins á lánasöfn banka og Íslandsbanki starfaði á litlum markaði þar sem hagsveiflur væru meiri en í flestum vestrænum ríkjum. Umfram eigið fé væri mikilvægt til að mæta afskriftum á samdráttarskeiðum og ekki síður til að styðja við útlánavöxt á hagvaxtarskeiðum. myndi sterkt eigið fé ýta undir eftirspurn þar sem þá væri meiri geta til arðgreiðslna til hluthafa yfir lengri tíma. Af þessum sökum töldu leiðandi söluráðgjafar ekki ráðlegt að bankinn sendi út önnur skilaboð til hugsanlegra fjárfesta með því að ráðast í sértækar arðgreiðslur fyrir útboð," segir enn fremur í skýrslunni um rökstuðning fyrir ákvörðuninni.
Því var það niðurstaða Bankasýslunnar að greiða ekki út sérstakan arð. Þá bendir Bankasýslan á að slíkt myndi hafa hverfandi áhrif á heildarverðmæti eignarhlutar ríkisins í bankanum.
Bankasýslan lagði í byrjun þessa árs til að selja meira af hlut ríkisins í bankanum í lokuðu útboði til fagfjárfesta . Bjarni Benediktsson hefur fallist á tillöguna og telur rétt að selja allan hlut ríkisins í bankanum .