Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, tókust á um kostnað vegna endurbóta seðlabankans á tveimur sögufrægum byggingum fyrir framan fréttamenn í gær.

Það þykir mjög óvenjulegt yfir sitjandi forseta að mæta upp í seðlabanka. Síðasta opinbera heimsókn Bandaríkjaforseta til seðlabankans var árið 2008 þegar George W Bush var viðstaddur þegar Ben Bernanke tók formlega við embætti seðlabankastjóra í miðri fjármálakrísu.

Trump, með Powell standandi við hlið sér, hélt því fram að framkvæmdakostnaður vegna ofangreinds verkefnis hefði farið talsvert fram úr áætlun eða úr 2,5 milljörðum dala í 3,1 milljarð dala. Hann dró fram blað úr jakkanum sínum og afhenti Powell.

Seðlabankastjórinn renndi yfir skjalið og svaraði forsetanum fljótlega að hann hefði bætt við þriðju byggingunni inn í heildarkostnað verkefnisins.

Í kjölfarið var Trump - sem hefur verið afar gagnrýninn á Powell og kvartað yfir að bankinn hafi ekki lækkað vexti hraðar – spurður út í hvað þyrfti að gerast svo að afstaða hans í garð seðlabankastjórans myndi mildast. Trump klappaði þá bakið á Powell og svaraði kíminn: „Ég myndi gjarnan vilja sjá hann lækka vexti. Fyrir utan það, þá veit ég ekki hvað ég á að segja?“

Eftir heimsóknina gaf Trump til kynna að hann hyggist ekki fylgja ráðleggingum sumra ráðgjafa sinna um að bola Powell úr embætti. „Það væri stórt skref, og ég tel það ekki nauðsynlegt,“ sagði Trump við fréttamenn.

Spurður út í hvort framúrkeyrsla endurbótanna væri tilefni til afsagnar Powell, sagist Trump ekki vilja ganga svo langt. Hann sagði kostnaðinn hafa farið langt fram úr áætlun og slíkt gerist, að því er segir í frétt The Wall Street Journal.

Trump sagði í færslu á samfélagsmiðlum að það hafi verið mikill heiður að heimsækja seðlabankann.