VÍS mun eignast Fossa fjárfestingabanka í skiptum fyrir 12,6% hlut núverandi eigenda Fossa í hinu nýsameinaða félagi samkvæmt nýundirrituðum kaupsamningi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar nú á áttunda tímanum.
Tveir forstjórar verða yfir hinu sameinaða félagi. Guðný Helga Herbertsdóttir núverandi forstjóri VÍS sem tók við af Helga Bjarnasyni í lok febrúar mun bera ábyrgð á tryggingarekstri en Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa á þróun fjármálastarfsemi, fjármögnun og framtíðarskipulagi. Haraldur mun auk þess stýra rekstri samstæðunnar.
„Horft er til þess að áhrif af sameiningu felist fyrst og fremst í tækifærum til vaxtar og sóknar frekar en kostnaðarhagræðingu,“ segir um framtíðarsýn félagsins í tilkynningunni. Framtíðarskipulag sé þó enn í mótun, en áhersla verði lögð á „arðsaman vöxt, að auka og efla tekjustoðir, stjórnarhætti og samnýtingu rekstrarþátta.“
Steingrímur Arnar Finnsson mun stýra fjárfestingabankastarfseminni og Arnór Gunnarsson kemur til með að stýra SIV eignastýringu.
Eignarhlutur hluthafa Fossa rýrnar um 0,7%
Hluthafar Fossa fá ögn minna í sinn hlut af samstæðunni en lagt var upp með þegar tilkynnt var um samrunaviðræðurnar um miðjan febrúar síðastliðinn, en þá var talað um 260 milljón hluti og 13,3% eignarhlutdeild. Samkvæmt kaupsamningnum fá þeir eins og áður segir aðeins 12,6% hlut, eða 245 milljónir hluta.
Hluthafar VÍS munu taka afstöðu til samningsins á hluthafafundi þar sem óskað verður samþykkis þeirra sem boðaður verður innan þriggja vikna.