Össur hefur ráðið Eddu Lára sem forstöðumann fjárfestatengsla og Birnu Írisi Jónsdóttur sem nýjan forstöðumann UT reksturs og öryggis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össuri.

Edda Lára Lúðvígsdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Össuri. Edda Lára er með víðtæka reynslu af sjóðstýringu, fjárfestingabankastarfsemi og fjárfestatengslum frá fyrri störfum hjá GAMMA Capital Management, Íslandsbanka og Glitni. Edda Lára er viðskiptafræðingur með M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Birna Íris Jónsdóttir er nýr forstöðumaður UT reksturs og öryggis hjá Össuri. Birna Íris er stofnandi Fractal ráðgjöf og hefur áralanga reynslu af upplýsingatækni og stafrænni vegferð fyrirtækja og hefur meðal annars starfað hjá Högum, Sjóvá og Landsbankanum. Hún er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það er afar ánægjulegt að fá tvær reynslumiklar konur með yfirgripsmikla þekkingu til starfa hjá félaginu og við bjóðum þær hjartanlega velkomnar," segir Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, í tilkynningunni.

Hjá Össuri starfa rúmlega 3.500 manns í yfir 30 löndum og þar af um 500 starfsmenn í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.