Benchmark Genetics Iceland, sem hét áður Stofnfiskur, áformar að tvöfalda seiðaframleiðslu sína að Mógilsá í Kollafirði við Mosfellsbæ úr 20 tonnum í 40 tonn. Þetta kemur fram í matsskyldufyrirspurn vegna áformaðrar umsóknar um stækkun starfs- og rekstrarleyfis stöðvarinnar.
Kollafjörður er gömul eldisstöð sem var byggð árið 1961 og var rekin sem Laxeldisstöð ríkisins. Stofnfiskur hóf starfsemi sína í henni árið 1991. Landið og byggingar eru í eigu ríkisins en Benchmark Genetics Iceland leigir það af Hafrannsóknarstofnun. Byggingar tengdar eldinu ná yfir svæði sem er 932 fermetrar.
Til að auka framleiðslugetuna upp í 40 tonn þá stendur til að taka í notkun 3 af 7 útikerjum sem standa fyrir utan stöðina sem ekki hafa verið í notkun í fjöldamörg ár. Til að bæta eldisaðstæður stendur til að reisa nýja 630 fermetra byggingu yfir þau þrjú útiker sem tekin verða í notkun.
Miðað er við að framkvæmdin hefjist um leið og öll leyfi eru til staðar og er áætlað að framkvæmdin taki um sex mánuði.
„Ástæða stækkunar er að auka úrval kynbótafisks sem fer til áframeldis í klakfiskastöðvar fyrirtækisins í Vogavík og Kalmanstjörn. Ávinningur með aukningu á úrvali kynbótafisks er auknar framfarir í fiskeldi á Íslandi t.d. aukin mótstaða gegn sjúkdómum, hraðari vöxtur og lægra kynþroskahlutfall.
Auk þess er mikill vöxtur er í laxeldi hérlendis og hefur innflutningur á lifandi laxahrognum til Íslands verið bannaður, það er því nauðsynlegt fyrir Benchmark Genetics Iceland að stækka seiðaeldisstöð sína þannig að hægt verði að koma til móts við aukna eftirspurn eftir lifandi laxahrognum á næstu árum.“
Félagið segir að stækkun leyfanna muni einnig tryggja að framleiðsla sé innan framleiðslumarka en árin 2022 og 2023 fór framleiðsla rétt yfir 20 tonn þar sem kynbætur hafa skilað betri vexti en áður og lífmassi því meiri þrátt fyrir að fjöldi seiða í stöðinni sé sá sami.
Benchmark Genetics Iceland er fiskeldisfyrirtæki sem hefur þá sérstöðu að það sér öllum laxeldisfyrirtækjum landsins fyrir kynbættum lifandi laxahrognum til áframeldis.
Félagið er dótturfélag Benchmark Genetics sem var selt til Novo Holdings, meirihlutaeiganda Novo Nordisk, í ár.
Benchmark Genetics Iceland rekur þrjár hrognastöðvar á Íslandi, þ.e.a.s. í Vogavík við Vatnsleysuströnd, Kalmanstjörn á Garðskaga og í Kollafirði. Þá rekur félagið hrognkelsaeldi í Höfnum á Reykjanesi. Aðalskrifstofan er svo í Hafnarfirði.
Sjógönguseiði úr Kollafirði fara til áframeldis í klakstöðvar fyrirtækisins í Vogavík og Kalmanstjörn þar hrogn eru tekin úr kynþroska fisk og þau send til frjóvgunar í Hrognahús fyrirtækisins í Vogavík þar sem augnuð hrogn eru alin uns þau eru tilbúin til sendingar til viðskiptavina innanlands og erlendis.