Svissneski fjárfestingabankinn UBS hagnaðist um 1,3 milljarða dali, eða um 165 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaður ársfjórðungsins var viss vonbrigði miðað við fyrri ársfjórðunga, en bankinn hagnaðist um 2,28 milljarða á þriðja ársfjórðungi og 1,64 milljarða dali á fjórða ársfjórðungi 2020.

Hagnaður bankans jókst um 14% milli ára og nam hagnaðurinn um 7,5 milljörðum dala á árinu, en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir um 7 milljarða dala hagnaði. Bankinn hefur ekki hagnast jafn mikið í 15 ár, að því er fram kemur í frétt hjá CNBC .

Gengi bréfa bankans hefur hækkað um tæp sjö prósent frá opnun markaða í morgun. Gengið stendur í 18,28 svissneskum frönkum á hlut og hefur ekki verið hærra í fjögur ár.