Einkarekið fræðslufyrirtæki var tvívegis sett í þá stöðu að loka starfsemi sinni í faraldrinum en fékk á sama tíma synjun um lokunarstyrki í bæði skiptin. Þetta kemur fram í umsögn Félags atvinnurekenda (FA) um frumvarp til laga um framhald lokunarstyrkja.
Félagsmaður í Félagi atvinnurekenda (FA), fræðslu- og þjálfunarfyrirtæki, var synjað um lokunarstyrk í fyrstu bylgju faraldursins í mars 2020. Skattayfirvöld töldu þá að fyrirtækið hefði getað haldið út starfsemi í einhverri mynd í stað þess að loka og staðfesti Yfirskattanefnd ákvörðunina.
Í mars 2021 var aftur gripið til harðra samkomutakmarkana þar sem öllum skólastigum var gert að fara snemma í páskafrí, og var staðnám óheimilt dagana 25 - 31. mars. Í kjölfar þessa sendi FA formlegt erindi til heilbrigðisráðuneytisins þann 25. mars 2021, fyrir hönd fræðslufyrirtækja sem starfa innan vébanda FA. Í erindinu spurði FA hvort einkareknum fræðslufyrirtækjum sé gert að loka starfsemi sinni til 31. mars eða hvort þau skuli fylgja almennum fjöldatakmörkunum og nálægðarreglu t.d. með því að kenna í tíu manna hópum. Í bréfi FA var tekið fram að skýrleiki í málinu varðaði mikilvæga hagsmuni eins og rétt fyrirtækjanna til lokunarstyrkja.
Í svari ráðuneytisins kom fram að tiltekin starfsemi einkarekinna fræðslufyrirtækja falli undir reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. „Þeim ber því að loka á framangreindu tímabili," sagði í svari ráðuneytisins. Í kjölfar þess að umrætt fyrirtæki lokaði staðnámi sínu sótti það um lokunarstyrk á ný.
Umsókn um lokunarstyrk hafnað á ný
Þann 26. janúar síðastliðinn kvað yfirskattanefnd upp þann úrskurð að ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna umsókn fyrirtækisins um lokunarstyrk væri staðfest, þar sem starfsemin uppfyllti ekki skilyrði áðurnefndar skilgreiningar á framhaldsfræðslu.
Í umsögn FA segir að „þótt svona stjórnsýsla hafi í áranna rás verið hugmyndauppspretta höfunda ódauðlegra listaverka eins og „Yes Minister" eða „Little Britain", finnst fyrirtækjum sem hljóta þessa meðferð það yfirleitt ekki fyndið."
FA bætir við að áætlað umfang þeirra lokunarstyrkja sem ákveðnir voru í upphafi faraldurs hafi hljóðað upp á 2,5 milljarða króna. Útgreiddir lokunarstyrkir í janúar 2022 frá upphafi faraldurs hafi numið 2,8 milljörðum króna, þótt úrræðið hafi verið útvíkkað í tvígang. Því hafi kostnaður ríkissjóðs vegna úrræðisins ekki farið úr böndunum.
„Óhætt er að álykta að reynsla fyrirtækisins, sem hér er fjallað um, af framkvæmd á lokunarstyrkjaúrræðum stjórnvalda er á þann veg að forsvarsmönnum þess myndi ekki detta í hug að fara eftir fyrirmælum um að loka starfseminni, kæmi sú staða upp í framtíðinni í samhengi þessa faraldurs eða annarra."