Greiningardeildir bæði Landsbankans og Íslandsbanka telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni í næstu viku slá tímabundið á frekari vaxtalækkanir.
Þrálát verðbólga, háar verðbólguvæntingar og merki um áframhaldandi seiglu í hagkerfinu eru nefndar sem helstu ástæður.
Í greiningu Landsbankans segir að vaxandi verðbólga hafi dregið úr svigrúmi nefndarinnar til að lækka raunvexti enn frekar.
Bankinn bendir á að ársverðbólga hafi haldist nær föst í kringum 4% síðustu mánuði og að ekki sé útlit fyrir hjöðnun á næstunni.
„Þótt ársverðbólga hafi verið nokkuð stöðug á síðustu mánuðum hefur samsetning hennar tekið breytingum. Frá maífundi peningastefnunefndar hefur dregið úr framlagi innfluttra vara, samhliða gengisstyrkingu, en framlag þjónustu hefur færst í aukana, hvort sem litið er til almennrar þjónustu eða opinberrar þjónustu,” segir í greiningu bankans.
Landsbankinn segir að verðbólguvæntingar séu stöðugar en enn langt yfir markmiði Seðlabankans, sem dragi úr vilja til frekari slökunar á peningalegu aðhaldi.
Þá sé hagkerfið enn að sýna styrk, meðal annars með aukinni kortaveltu, kröftugri utanlandsferðamarkaði og áframhaldandi umsvifum á íbúðamarkaði.
Ekki forsendur til frekari lækkana á þessu ári
Íslandsbanki telur að við núverandi verðbólguþróun sé ólíklegt að nefndin lækki vexti frekar á árinu.
Bankinn minnir á að við síðustu vaxtaákvörðun í maí hafi nefndin sett skýrt skilyrði um að verðbólga þyrfti að færast nær 2,5% markmiði áður en ný lækkun kæmi til greina.
Þvert á það hafi undirliggjandi verðbólga, sérstaklega í þjónustu, hækkað sér í lagi vegna hærri launakostnaðar.
Greining Íslandsbanka bendir á að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hafi ekki lækkað í takt við 1,75 prósentustiga stýrivaxtalækkanir frá því í fyrrahaust.
Hagvöxtur, kortavelta og neysluvísbendingar sýni að innlend eftirspurn sé enn öflug.
Bankinn spáir að vextir haldist óbreyttir í 7,50% út árið og að vaxtalækkunarferli hefjist ekki fyrr en á næsta ári, þegar verðbólga og væntingar hafi lækkað nægilega eða ef efnahagshorfur versni verulega.
Báðir bankar vísa til þess að Seðlabankinn hafi á síðasta fundi gefið til kynna að frekari lækkanir séu háðar því að verðbólga nálgist markmiðið.
Þar sem nýjustu mælingar sýni þrálátan verðþrýsting og væntingar haldist háar telja bankarnir að nú sé rétti tíminn til að meta áhrif fyrri lækkana áður en frekari skref eru tekin.
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir vaxtaákvörðun sína miðvikudaginn í næstu viku.