Stjórn Tesla hefur samþykkt að veita Elon Musk hlutabréf að verðmæti um 30 milljarða Bandaríkjadala samkvæmt nýjum kaupréttarsamningi en stjórnin vonar að það dugi til að tryggja áframhaldandi forystu hans yfir fyrirtækinu.
Úthlutunin, sem nemur 96 milljónum hluta, er liður í aðgerðum stjórnarinnar til að halda Musk tengdum fyrirtækinu eftir að hann hótaði að stíga til hliðar nema hann fengi aukin áhrif, samkvæmt Financial Times.
„Að halda Elon innan fyrirtækisins skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr,“ segir í bréfi stjórnarinnar til hluthafa. „Við erum sannfærð um að þessi úthlutun hvetji hann til að vera áfram og að Hanna einbeiti sér að því að leiða Tesla inn í næsta vaxtarskeið.“
Skilyrði úthlutunarinnar
Til að fá hlutabréfin þarf Musk að greiða 23,34 dali fyrir hvern hlut, sem samsvarar sama nýtingarverði og gilti í metkaupréttaráætlun hans frá árinu 2018.
Hlutabréfin verða bundin í fimm ár og eru háð þeim skilyrðum að Musk gegni áfram æðstu stjórnunarstöðu hjá fyrirtækinu næstu tvö árin.
Eftir úthlutunina mun eignarhlutur Musk í Tesla hækka úr tæplega 13 prósentum í um 16 prósent.
Tesla og Musk hafa um árabil staðið í málaferlum í Delaware vegna fyrri kaupréttarsamnings frá 2018, sem metinn var á 56 milljarða dala en um er að ræða stærsta kaupréttarsamning í sögu Bandaríkjanna.
Dómari í Delaware felldi samninginn úr gildi í janúar 2024 og taldi hann of ívilnandi, auk þess sem hann sagði stjórnarmenn og tengda Musk úr haldi.
Í kjölfarið hefur Musk ítrekað gefið í skyn að hann myndi einbeita sér að öðrum fyrirtækjum sínum eins og SpaceX, xAI, Neuralink og The Boring Company, nema hann fengi meiri stjórn og aukna hlutdeild í Tesla.
Hann rifjaði þá hótun upp eftir slaka afkomu félagsins í síðasta mánuði og sagði að hann gæti „auðveldlega verið rekinn af aðgerðasinnum í hluthafahópnum.“
Stjórnin stendur nú frammi fyrir þeirri áskorun að draga úr óvissu um framtíð Musks hjá fyrirtækinu, á sama tíma og sala dregst saman og samskipti Musks við Bandaríkjaforseta hafa versnað. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur dregið úr ívilnunum fyrir rafbíla, sem bitnar á Tesla.
Musk hefur heitið því að beina allri athygli sinni aðrekstrir Tesla eftir að sala félagsins hrundi í Evrópu og fleiri lykilmörkuðum.
Samstarfi hans við Trump í ríkisstjórninni lauk með opinberum ágreiningi fyrr á þessu ári.
Möguleg samlegð við xAI
Í bréfi stjórnarformanns Tesla Robyn Denholm og stjórnarkonunnar Kathleen Wilson-Thompson kemur fram að þessi úthlutun sé „fyrsta mikilvæga skrefið“ í að tryggja áframhaldandi þátttöku Musks.
Þau benda þó á að úthlutunin sé háð núverandi kaupréttaráætlun fyrirtækisins og að unnið sé að langtímalausn sem kynnt verður til atkvæðagreiðslu á aðalfundi félagsins þann 6. nóvember.
Stjórnini útilokar einnig ekki að Tesla fjárfesti íAII, gervigreindarfyrirtæki Musk, til að tryggja betur samlegð í rekstri og hagsmunum.
Musk hefur sjálfur sagt að hann myndi fagna slíkri fjárfestingu og lofað að leggja málið fyrir hluthafa.