Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% á milli júní og júlí hefur nú hækkað um 4,0% á síðastliðnum tólf mánuðum samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Ársverðbólgan dróst saman um 0,2 prósentur frá fyrri mánuði þegar hún mældist 4,2%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,32% milli mánaða og hefur nú hækkað um 3,0% á síðustu tólf mánuðum. Árshækkun vísitölunnar án húsnæðis dróst saman 0,2 um prósentustig milli mánaða en hún mældist 3,2% í júní.
Í tilkynningu Hagstofunnar segir að sumarútsölur séu víða í gangi og lækkuðu föt og skór um 4,8% milli mánaða, auk þess sem húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkuðu um 2,2%. Húsnæði, hiti og rafmagn hækkaði um 0,4% og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 19,9%.
Greiningardeildir Landsbankans og Íslandsbanka höfðu spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,2-0,26% milli mánaða og að verðbólgan myndi hjaðna niður í 3,9-4,0%. Greining Íslandsbanka spáði 3,9% verðbólgu í júlí og hagfræðideild Landsbankans spáði 4,0% verðbólgu.
Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er 20. ágúst næstkomandi. Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur, úr 7,75% í 7,5%, við síðustu vaxtaákvörðun þann 21. maí síðastliðinn.
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur að undanförnu gefið skýrt til kynna að næstu vaxtaákvarðanir muni ráðast af því hvort verðbólgan haldi áfram að hjaðna.