Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,16% á milli janúar og febrúar og hefur nú hækkað um 6,2% á síðustu tólf mánuðum. Verðbólgan hækkar um 0,5% prósentustig frá fyrri mánuði þegar hún mældist 5,7%. Verðbólgan hefur ekki verið meiri hér á landi frá því í apríl 2012. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 4,2%. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofan birti í morgun.
Verðbólgan hefur verið yfir 4% efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans frá því í ársbyrjun 2021. Peningastefnunefnd sagðist við síðustu vaxtaákvörðun vænta þess að verðbólgan yrði 5,8% á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5% fram eftir þessu ári.
Verð í flokki húsgagna og heimilisbúnaðar hækkaði um 7,5% á milli mánaða sem hafði 0,47% á mánaðarlega hækkun vísitölunnar. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, eða reiknuð húsaleiga, hækkaði um 1,2% á milli mánaða, verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% og bensín og olíur hækkuðu um 3,6%. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu hins vegar um 9,7% frá því í janúar.
Sjá einnig: Íbúðaverðhækkað um 20% á einu ári
Af viðskiptabönkunum þremur var Arion banki með dekkstu spána en hann spáði því að verðbólga færi upp í 6,1% í febrúar. Greining Íslandsbanka hafði spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,9% á milli mánaða og verðbólga yrði því 5,9%. Hagfræðideild Landsbankans spáði 0,8% mánaðarlegri hækkun vísitölunnar sem hefði haft í för með sér 5,8% verðbólgu.