Háþróuðum gervigreindarörgjörvum frá Nvidia að andvirði a.m.k. einn milljarður dala var smyglað til Kína yfir þriggja mánaða tímabil eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti herti takmarkanir á útflutningi H20-örgjörva í apríl.
Samkvæmt ítarlegri umfjöllun Financial Times eru B200 örgjörvar Nvidia orðnir eftirsóttustu örgjörvarnir sem framleiddir eru í Bandaríkjunum á ört vaxandi svörtum markaði í Kína.
Umræddir örgjörvar eru notaðir af stórfyrirtækjum í Bandaríkjunum á borð við OpenAI, Google og Meta til að þjálfa gervigreindarlíkön. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa bannað sölu á örgjörvunum til Kína.
Í maí síðastliðnum byrjuðu nokkrir kínverskir dreifingaraðilar að selja B200 örgjörvana til gagnavera sem þjónusta kínversk gervigreindarfyrirtæki samkvæmt gögnum sem Financial Times hefur aðgang að. Þetta var skömmu í kjölfar þess að ríkisstjórn Trump herti takmarkanir á sölu H20 – lakari örgjörvum frá Nvidia sem voru þróaðir til að standast takmarkanir ríkisstjórnar Joe Bidens.
Það er löglegt fyrir dreifingaraðila að taka við og selja ofangreinda örgjörva áfram í Kína svo lengi sem greitt er fyrir alla viðeigandi tolla, samkvæmt lögmönnum sem FT ræddi við. Sala og dreifing örgjörvanna til Kína gengur hins vegar í bága við reglur bandarískra stjórnvalda.
Jensen Huang, forstjóri Nvidia, tilkynnti í síðustu viku að ríkisstjórn Trumps hefði samþykkt að heimila sölu á H20-örgjörvunum í Kína á ný.
Financial Times áætlar að heildarsala kínverskra dreifingaraðila frá Guangdong, Zhejiang og Anhui héruðunum á B200, H100 og H200 örgjörvunum yfir þriggja mánaða tímabil í aðdraganda tilkynningar Nvidia hafi numið yfir einum milljarði dala.
Nvidia hefur haldið því fram að það séu engin merki um fyrirtækið komi að eða hafi vitneskju um að vörur þess, sem um gilda útflutningstakmarkanir, hafi verið seldar til Kína.
Í svari við fyrirspurn FT segir Nvidia að það sé lítið vit í því að setja upp gagnaver með smygluðum vörum héðan og þaðan. Gagnaver þurfi almennt að reiða sig á þjónustu og stuðning, sem fyrirtækið veiti aðeins ef um viðurkenndar Nvida vörur er að ræða.