For­stjóri stærsta orku­fyrir­tækis Dan­merkur, Ørsted, viður­kennir að raun­veru­leg hætta hafi verið á að láns­hæfis­mat félagsins yrði fellt niður í svo­kallaðan ruslflokk hjá stærstu mats­fyrir­tækjum heims.

Til að forða félaginu frá slíkri lækkun hyggst Ørsted nú afla sér 60 milljarða danskra króna með út­boði á nýju hluta­fé.

Danska ríkið, sem er stærsti hlut­hafinn, hefur lýst yfir vilja til að leggja til helming fjár­hæðarinnar eða um 30 milljarða danskra króna.

„Það er okkar niður­staða að hluta­fjáraukning sé nauð­syn­leg og besta leiðin til að endur­byggja Ørsted,“ sagði for­stjórinn Rasmus Err­boe í gær enBørsen greinir frá.

766 milljarða gat í fjárhagsáætlun

Hlutafjáraukningin er í beinni and­stöðu við fyrri yfir­lýsingar Rasmus Err­boe, for­stjóra Ørsted um að hluta­hafar þyrftu ekki að bera kostnað af endur­skipu­lagningu fyrir­tækisins.

Ástæðan sé sú að stjórn Donalds Trump Bandaríkja­for­seta hafi skapað svo mikla óvissu að félagið geti ekki lengur selt stór vindorku­verk­efni til að fjár­magna rekstur og ný­fram­kvæmdir.

Donald Trump for­seti Bandaríkjanna hét því í kosninga­baráttu sinni að stöðva vindorku­verk­efni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í em­bætti.

Á vor­mánuðum stöðvaði Trump stórt vindorku­verk­efni í New York sem var í höndum helsta keppi­nautar Ørsted, Equ­in­or.

Áhrifin voru mikil á bandaríska vindorku­iðnaðinn og Ørsted neyðist nú til að hætta við fyrir­hugað sölu­ferli á Sun­rise Wind-verk­efninu.

Sú ákvörðun mun búa til 40 milljarða danskra króna gat í fjár­hagsáætlun félagsins og, að sögn Err­boe, setti hún láns­hæfis­mat Ørsted í beina hættu. Upphæðin samsvarar um 766 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Tvö þrep frá rusli og gengishrun

Láns­hæfi Ørsted hjá S&P, Moo­dy’s og Fitch er nú aðeins tveimur þrepum ofar en rusl­flokkur.

Horfur mats­fyrir­tækjanna S&P og Fitch eru þegar neikvæðar. Ef fyrir­tækið væri ekki með danska ríkið sem meiri­hluta­eig­anda væri matið einu þrepi lægra.

Fall í rusl­flokksláns­hæfi myndi þýða hærri lántöku­kostnað. Í versta falli gætu lánar­drottnar krafist fyrir­fram­greiðslu á stórum lánum eða aukinna trygginga í reiðufé.

Ørsted hefur glímt við fjár­hags­vanda í tvö ár eftir að stórauknar fjár­festingar í bandarískum vindorku­markaði hafa ekki skilað til­ætluðum árangri.

Err­boe tók við sem for­stjóri í janúar, á miðjum storminum, eftir brott­rekstur for­vera síns Mads Nipper.

Áætlað er að hlut­hafar samþykki hluta­fjáraukninguna á auka­aðal­fundi í septem­ber. Mark­miðið er að styrkja eigin­fjár­stöðu og tryggja að félagið haldi láns­hæfi í fjár­festingar­flokki.

Viðbrögðin á markaði voru hörð. Gengi Ørsted féll um 29,6% í gær og lokaði í lægsta verði frá upp­hafi.