Tilnefningarnefnd Regins hefur lagt til að Benedikt Olgeirsson komi inn í stjórn fasteignafélagsins í stað Alberts Þórs Jónssonar, sem hefur setið í stjórninni frá árinu 2015 og er varaformaður hennar í dag. Alls bárust níu framboð í stjórnina en frambjóðendur sem ekki hlutu tilnefningu drógu framboð til baka. Í skýrslu nefndarinnar er ekki tekið fram hvort Albert Þór hafi gefið kost á sér aftur eða ekki.

Benedikt Olgeirsson hefur síðastliðið ár starfað sem framkvæmdastjóri innviðaþróunar hjá Landspítalanum, auk þess að hafa verið framkvæmdastjóri þróunar og aðstoðarforstjóri Landspítalans. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá Atorku Group, Parlogis og hjá Eimskip í Hamborg. Benedikt er stjórnarformaður Varðar og hefur áður setið í stjórn Arion ásamt því að hafa gegnt stjórnarformennsku hjá Icepharma.

Albert Þór, sem setið hefur í stjórn Regins frá því í apríl 2015, er sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur. Hann var framkvæmdastjóri hjá FL Group árin 2005-2007 og forstöðumaður eignastýringar hjá LSR árin 2001-2005.

Tilnefningarnefndin leggur til að hinir fjórir núverandi stjórnarmenn Regins verði endurkjörnir á aðalfundi félagsins sem fer fram 10. mars næstkomandi. Fari hluthafar eftir tillögum nefndarinnar verður stjórn Regins skipuð af:

  • Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður
  • Benedikt Olgeirsson
  • Bryndís Hrafnkelsdóttir
  • Guðrún Tinna Ólafsdóttir
  • Heiðrún Emilía Jónsdóttir

Í tilnefningarnefnd Regins sitja Guðfinna S. Bjarnadóttir, eigandi LC ráðgjafar, Ína Björk Hannesdóttir, sem starfar á upplýsingatæknisviði Marels, og Sigurjón Pálsson, framkvæmdastjóri PayAnalytics. Guðfinna er formaður nefndarinnar.

Vakin er athygli á því að óháð störfum tilnefningarnefndar er samkvæmt samþykktum félagsins hægt að skila inn framboði til stjórnar skriflega með minnst sjö sólarhringa fyrirvara fyrir aðalfund.