Landsframleiðsla jókst um 4,3% á síðasta ári samanborið við 7,1% samdrátt árið 2020. Landsframleiðsla í fyrra var því enn tæplega 3% minni að raungildi en árið 2019. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun.

Hagvöxturinn í fyrra var meiri en greiningardeild Íslandsbanka hafði áætlað í þjóðhagsspá sem var gefin út fyrir rúmum mánuði síðan. Þar hafði greiningardeildin áætlað að hagvöxtur í fyrra yrði 4,1% og 4,7% í ár.

Hagstofan áætlar að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi aukist um 7,2% að raungildi, einkaneysla um 7,6%, fjármunamyndun um 13,6% og samneysla um 1,8%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt á síðasta ári þar sem vöxtur innflutnings mældist meiri en sem nam vexti útflutnings.

Hagstofan áætlar að landsframleiðsla hafi aukist um 4,4% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Landsframleiðsla á mann 6,2% minni en árið 2019

Áætlað er að landsmönnum hafi fjölgað um 1,8% á síðasta ári borið saman við fyrra ár. Að teknu tilliti til mannfjöldaþróunar er áætlað að landsframleiðsla á mann hafi aukist um 2,5% að raungildi á árinu 2021 borið saman við árið 2020. Landsframleiðsla á mann er þó enn um 6,2% minni að raungildi en hún var árið 2019.