Evrópskar vopna­verk­smiðjur eru nú að stækka á þreföldum hraða miðað við venju­lega fjár­festingu og upp­byggingu á friðartíma, sam­kvæmt nýrri greiningu Financial Times sem byggir á gögnum frá gervi­hnöttum.

Saman­lagt er um að ræða yfir 7 milljónir fer­metra af nýjum iðnaðar­svæðum sem markar sögu­legan áfanga í endur­vopnun álfunnar.

Bygginga­fram­kvæmdir hafa aukist hratt frá inn­rás Rúss­lands í Úkraínu árið 2022, þegar evrópsk ríki hófu að efla varnar­búnað sinn með auknum opin­berum stuðningi.

Greining FT, sem tók til 150 vopna­fram­leiðslu­stöðva hjá 37 fyrir­tækjum í Evrópu, sýnir að endur­vopnunin er nú ekki lengur aðeins á stefnu­skrá stjórn­málanna heldur farin að birtast í stáli, stein­steypu og jarðvegs­fram­kvæmdum.

Fram­kvæmdirnar snúa að stórum hluta að fram­leiðslu á skot­færum og eld­flaugum, tveimur mikilvægum flösku­hálsum í stuðningi Vestur­landa við Úkraínu.

Gögn frá Sentinel-1 radar­gervi­hnöttum Evrópsku geim­vísinda­stofnunarinnar sýna að um þriðjungur skoðaðra fram­leiðslu­stöðva hefur sýnt merki um stækkun eða nýbyggingar frá 2022.

Willi­am Alberqu­e, sér­fræðingur í vopna­eftir­liti hjá Asia Pa­cific Forum og fyrr­verandi yfir­maður hjá NATO, segir breytingarnar miklar og varan­legar.

„Þegar þú ferð að fjölda­fram­leiða sprengjur þá fer hráefnið að flæða hraðar, kostnaður lækkar og fram­leiðsla á eld­flaugum ein­faldast.“

ESB styrkir framleiðsluna

Eitt stærsta stækkunar­verk­efnið er ný fram­leiðslu­stöð í Várpa­lota í Ung­verja­landi, byggð í sam­starfi þýska varnar­málarisans Rhein­metall og ríkis­fyrir­tækisins N7 Holding.

Fyrsta verk­smiðjan, sem fram­leiðir 30 mm skot fyrir KF41 Lynx-bryn­varðafarar­tækið, var tekin í notkun í júlí 2024.

Þar eru einnig áform um fram­leiðslu á 155 mm stór­skota­liðs­skotum og 120 mm skotum fyrir Leopard 2 skriðdreka og mögu­lega Pant­her-gerðina, auk sprengi­efna­verk­smiðju.

Í Frakk­landi hefur Roxel stækkað verk­smiðju sína í Saint-Médard-en-Jal­les, sem fram­leiðir eld­flaugaþætti, með að­stoð frá evrópsku fjár­mögnunaráætluninni Act in Supp­ort of Ammunition Production (ASAP).

ASAP, sem er 500 milljóna evra stuðningsáætlun ESB, hefur haft veru­leg áhrif á fram­leiðslu­getu.

Af 88 verk­smiðjum sem fengu stuðning hafa 20 sýnt mikla stækkun, þar á meðal nýjar byggingar og vegir.

ESB áætlar að ár­leg fram­leiðslu­geta á skot­færum í álfunni hafi aukist úr 300 þúsund árið 2022 í um 2 milljónir í lok þessa árs.

Rhein­metall eitt og sér stefnir á að auka fram­leiðslu á 155 mm sprengjum úr 70 þúsund árið 2022 í 1,1 milljón árið 2027.

Í Þýska­landi hefur eld­flauga­fram­leiðandinn MBDA, með 10 milljóna evra ASAP-styrk, stækkað höfuðstöðvar sínar í Schroben­hausen. Fyrir­tækið vinnur nú að upp­setningu á fram­leiðslulínu fyrir Pat­riot GEM-T loft­varnar­eld­flaugar, í kjölfar 5,6 milljarða dala NATO-samnings.

Norska fyrir­tækið Kongs­berg opnaði nýja eld­flauga­verk­smiðju í júní 2024, studda með sam­tals 62 milljóna dala fjár­mögnun, þar af 10 milljónir evra úr ASAP.

BAE Sy­stems í Bret­landi hefur fjár­fest yfir 150 milljónum punda í skot­færa­verk­smiðjum frá 2022, m.a. til að sex­tán­falda fram­leiðslu­getu 155 mm sprengja í Glascoed í Wa­les.

Þrátt fyrir þessa miklu upp­byggingu vara sér­fræðingar við því að fram­leiðslan geti orðið undir há­marks­getu.

Fabian Hoff­mann, eld­flaugasér­fræðingur við Háskólann í Osló, bendir á að enn sé skortur á lykil­hlutum, m.a. sprengi­efnum og smáþotu­hreyflum fyrir lang­drægar eld­flaugar.

„Þetta er for­senda þess að NATO geti hrint í fram­kvæmd varnar­stefnu sinni gagn­vart Rúss­landi. Ef við ætlum að halda aftur af þeim þurfum við að auka fram­leiðsluna veru­lega.“

ESB vinnur nú að nýrri 1,5 milljarða evra áætlun sem byggir á sömu hug­mynda­fræði og ASAP, með áherslu á eld­flaugar, loft­varnar­kerfi, stór­skota­lið og dróna.