Ný könnun Gallup fyrir Nort­hstack sýnir að lang­flestir Ís­lendingar telja nýsköpun og sprota­starf skipta miklu máli fyrir framtíð hag­kerfisins. Meiri­hlutinn er jafn­framt jákvæður fyrir þróun nýsköpunar á komandi árum.

Um 87% lands­manna segja að fram­lag nýsköpunar og sprota­fyrir­tækja sé mikilvægt fyrir hag­vöxt og efna­hags­líf, sam­kvæmt könnuninni sem Gallup gerði í maí.

Þrír af hverjum fjórum eru einnig jákvæðir um framtíð nýsköpunar á Ís­landi.

Það sem vekur sér­staka at­hygli er að viðhorfin eru nánast þau sömu í öllum lýðfræði­hópum, óháð aldri, kyni, bú­setu, menntun eða tekjum.

Kristinn Hróbjarts­son, stofnandi Nort­hstack, segir niður­stöðurnar endur­spegla aukna meðvitund al­mennings um vægi nýsköpunar.

„Það hefur ör­lað á því að upp­lifun al­mennings af nýsköpunar­verk­efnum væri sú að um lítil og krútt­leg verk­efni væri að ræða,” segir Kristinn.

„En eins og við höfum fjallað um í gegnum tíðina hefur um­hverfi nýsköpunar og tækni gjör­breyst á síðustu árum. Meiri­háttar þróun á borð við söluna á Kerecis, upp­bygging Al­vot­ech, og stóraukið einka­fjár­magn á öllum stigum fjár­mögnunar sprota­fyrir­tækja sýnir mikilvægi starf­seminnar fyrir hag­kerfið, og það er gott að al­menningur skynji þá þróun.”


Sam­kvæmt niður­stöðunum telja 87% svar­enda að fram­lag nýsköpunar og sprota­fyrir­tækja sé frekar eða mjög mikilvægt fyrir hag­kerfið og hag­vöxt, og aðeins um 1,6% telja fram­lagið óveru­legt.

Þá segjast 75,5% lands­manna vera jákvæðir í garð framtíðar nýsköpunar á Ís­landi, þar af 19% mjög jákvæðir og 56% frekar jákvæðir.

Hluti af stærra greiningar­verk­efni

Könnunin er liður í um­fangs­miklu verk­efni Nort­hstack, Nýsköpunar­landið 2025, sem kort­leggur um­hverfi nýsköpunar á Ís­landi og þróun þess frá síðustu sam­bæri­legu könnun árið 2019.

Í haust verða birtar niður­stöður þar sem fjallað verður um viðhorf frum­kvöðla og sprota­starfandi aðila til helstu þátta nýsköpunar­um­hverfisins: fjár­mögnunar, mann­auðs, sam­starfs, opin­bers stuðnings og ytri aðstæðna.

Verk­efnið er styrkt af Tækniþróunar­sjóði.