Ný könnun Gallup fyrir Northstack sýnir að langflestir Íslendingar telja nýsköpun og sprotastarf skipta miklu máli fyrir framtíð hagkerfisins. Meirihlutinn er jafnframt jákvæður fyrir þróun nýsköpunar á komandi árum.
Um 87% landsmanna segja að framlag nýsköpunar og sprotafyrirtækja sé mikilvægt fyrir hagvöxt og efnahagslíf, samkvæmt könnuninni sem Gallup gerði í maí.
Þrír af hverjum fjórum eru einnig jákvæðir um framtíð nýsköpunar á Íslandi.
Það sem vekur sérstaka athygli er að viðhorfin eru nánast þau sömu í öllum lýðfræðihópum, óháð aldri, kyni, búsetu, menntun eða tekjum.
Kristinn Hróbjartsson, stofnandi Northstack, segir niðurstöðurnar endurspegla aukna meðvitund almennings um vægi nýsköpunar.
„Það hefur örlað á því að upplifun almennings af nýsköpunarverkefnum væri sú að um lítil og krúttleg verkefni væri að ræða,” segir Kristinn.
„En eins og við höfum fjallað um í gegnum tíðina hefur umhverfi nýsköpunar og tækni gjörbreyst á síðustu árum. Meiriháttar þróun á borð við söluna á Kerecis, uppbygging Alvotech, og stóraukið einkafjármagn á öllum stigum fjármögnunar sprotafyrirtækja sýnir mikilvægi starfseminnar fyrir hagkerfið, og það er gott að almenningur skynji þá þróun.”
Samkvæmt niðurstöðunum telja 87% svarenda að framlag nýsköpunar og sprotafyrirtækja sé frekar eða mjög mikilvægt fyrir hagkerfið og hagvöxt, og aðeins um 1,6% telja framlagið óverulegt.
Þá segjast 75,5% landsmanna vera jákvæðir í garð framtíðar nýsköpunar á Íslandi, þar af 19% mjög jákvæðir og 56% frekar jákvæðir.
Hluti af stærra greiningarverkefni
Könnunin er liður í umfangsmiklu verkefni Northstack, Nýsköpunarlandið 2025, sem kortleggur umhverfi nýsköpunar á Íslandi og þróun þess frá síðustu sambærilegu könnun árið 2019.
Í haust verða birtar niðurstöður þar sem fjallað verður um viðhorf frumkvöðla og sprotastarfandi aðila til helstu þátta nýsköpunarumhverfisins: fjármögnunar, mannauðs, samstarfs, opinbers stuðnings og ytri aðstæðna.
Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði.