Regluverk um fjármálamarkaði í Evrópu telur um 15.000 blaðsíður. 80-100 ársverk innan fjármálakerfisins, bara hér á landi, fara í að innleiða reglur og lagabreytingar í rekstri fjármálafyrirtækja. Allt að helmingur tíma áhættustýringar og regluvörslu fer í skýrsluskil og samskipti við eftirlitsaðila, alls um 50-60 ársverk í fjármálakerfinu.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins um bréf seðlabankastjóra á Norðurlöndunum til evrópska bankaeftirlitsins, þar sem varað er við flóknu regluverki um fjármálastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Gott framtak hjá Ásgeiri Jónssyni og kollegum hans.

Evrópusambandið er að vakna upp við þann vonda draum að hafsjór alls konar reglna og krafna á fyrirtæki í álfunni lamar alla atvinnustarfsemi og samkeppnishæfni hennar í heiminum. Hver ber á endanum kostnaðinn af þessu reglubákni? Fyrirtækin geta ekki annað en velt honum út í verðlagið, sem bitnar á almenningi og verst á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Svo ekki sé talað um öll fyrirtækin sem ekki verða til, lausnirnar sem aldrei komast úr startholunum vegna óhóflegra krafna og íþyngjandi reglna.

Í tilfelli fjármálastarfsemi á reglufarganið sér líklega að miklu leyti rætur í þeirri staðreynd að bankar eiga ekki fyrir skuldbindingum sínum, vilji allir lánardrottnar rukka þá samstundis um inneignir sínar. Þetta er leyst með því að gefa í skyn að ríkissjóðir muni hlaupa undir bagga með fjármálastofnunum ef þannig beri undir. Það leiðir til freistnivanda, sem reynt er að hemja með kæfandi regluverki.

Hvernig væri að láta fjármálafyrirtæki bera ábyrgð á skuldbindingum sínum, hætta að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið og fjarlægja aðgangshindranir á fjármálamarkaði? Þá eiga bankar kannski möguleika á því að lifa af samkeppnina við nýjar fjártæknilausnir, sem þjappa þúsunda manna vinnustöðum í eitt app á snjallsímanum.

Höfundur er skrifstofumaður.