Stór hluti þjóðarinnar, eða 45,9%, er fylgjandi því að hefja á ný olíuleit í íslenskri lögsögu. Þetta sýnir könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið sem sagt var frá í síðasta blaði. Tæplega þriðjungur er andvígur slíkum áformum og fjórðungur þátttakenda svaraði hvorki né.

Engin olíuleit hefur farið fram á Íslandi frá árinu 2018. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ítarlegri fréttaskýringu í vor er talið að á Drekasvæðinu, hvar einna mestar vonir eru bundnar um að olía finnist, séu 10 milljarðar tunna. Það þýðir að þar er mögulega stærsta olíu- og gaslind í Norður-Atlantshafi. Þegar gefin eru út leyfi þá tekur ríkið venjulega helming af rekstrarhagnaði sem þýðir að íslenska ríkið gæti fengið um 33 þúsund milljarða króna í tekjur af olíuvinnslu á um 20 árum. Sú fjárhæð gæti staðið undir öllum útgjöldum ríkisins á þessu tímabili.

Þetta kom fram í máli Heiðars Guðjónssonar, sem var um árabil stjórnarformaður Eykon Energy sem stundaði olíuleit á Drekasvæðinu, þar til Orkustofnun afturkallaði leyfi félagsins til olíuleitar og vinnslu á svæðinu árið 2018.

Stefna ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um olíuleit er aftur á móti skýr. Þannig sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í vor að ekki væri á dagskrá að hefja olíuleit á ný. Það er í takti við stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, sem var við völd á síðasta kjörtímabili, en var kveðið á um í stjórnarsáttmála að leyfi til olíuleitar yrðu ekki veitt.

Í fréttaskýringunni sagði Heiðar afstöðu ríkisstjórnarinnar óábyrga. „Ástæðan er sú að heiminn vantar gas og olíu, sem er miklu hreinni orkugjafi en kol. Út frá öryggissjónarmiðum, eftir innrás Rússa í Úkraínu, þá skiptir það Evrópu gríðarlega miklu máli að geta framleitt með ábyrgum hætti olíu og gas innan álfunnar. Ef Evrópuríki ætla að stóla á framleiðendur í Afríku eða Mið-Asíu, þar sem einræðisherrar eru við völd og umhverfismál mæta algjörum afgangi, þá er það mjög óábyrg afstaða,“ sagði hann. Það sé alveg sama hvaða skýrslur fólk skoðar, niðurstaðan sé sú að það sé ekki fræðilegur möguleiki að fasa út allt jarðefnaeldsneyti á þessari öld, hvað þá á næstu árum.

Íslendingum leiðist ekki að bera sig saman við Norðmenn. Á síðasta ári námu tekjur norskra stjórnvalda af olíu- og gasvinnslu 680 milljörðum norskra króna eða um 8.600 milljörðum íslenskra króna. Norðmenn hafa gefið út 150 sérleyfi til rannsóknar og olíuleitar á síðustu tveimur árum. Heiðar var ómyrkur í máli spurður um hvaða tækifærum Ísland sé að missa af:

„Við erum barnaleg í þeirri trú að það sé samfélagslega ábyrgt að nýta ekki auðlindir okkar, að aðrir nýti sínar auðlindir en við gerum það ekki. Við myndum gera umhverfinu greiða með því að vinna olíu hér því við myndum gera það á miklu ábyrgari hátt en einræðisríkin sem ég nefndi og með minni tilkostnaði.“

Taka má undir hvert orð. Það er með ólíkindum að ríkisstjórn sem kveðst í stefnuyfirlýsingu ætla að „rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu“ slái olíuleit út af borðinu. Ekki er vanþörf á að stórauka verðmætasköpun og um leið skatttekjur ríkisins, enda enginn áhugi fyrir að hagræða í ríkisrekstrinum þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Þvert á móti á að gefa í.

Þau útgjöld verða því miður fjármögnuð með aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki, í stað þess að einblínt sé á að „stækka kökuna“ með því að lækka skatta og stuðla um leið að aukinni verðmætasköpun.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.