Hrafnarnir verða stundum skelkaðir þegar hæft fólk lætur skyndilega af ábyrgðarstörfum í einkageiranum til þess eins að sækja í öryggi ríkisfaðmsins og þeirra endalausu, tilgangslausu rúnstykkjafunda sem þar bíða.
Sporin hræða í þessum efnum, enda muna reynslumiklir menn á fjármálamarkaði áhrif og afleiðingar þess að Óttar Guðjónsson lét af störfum sem forstöðumaður markaðsviðskipta og fjárstýringar Glitnis til að gerast framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga snemmsumars örlagaársins 2008. Stuttu síðar hrundi allt.
Nú hefur Valdimar Ármann kvatt Arctica Finance og tekið við sem sviðsstjóri markaðsviðskipta hjá Seðlabankanum. Vonandi endurtekur sagan sig ekki. Hrafnarnir telja sennilegt að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um þegar kom að ráðningunni. Hann og Valdimar unnu saman hjá Gamma á sínum tíma og skrifuðu saman mikla og gagnlega skýrslu fyrir Samtök fjármálafyrirtækja sem heitir Nauðsyn eða val og fjallar um verðtryggingu á íslenskum lánamarkaði.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.