Hvort á maður býsnast yfir annmörkum heilbrigðiskerfisins eða fagna þeim tækifærum sem blasa við til að gera betur?  

Fyrst eru það heilsugæslustöðvar. Erfitt er að fá úthlutað föstum heimilislækni og biðtíminn er óralangur eftir að komast að. Komið hefur fram að afköstin eru meiri á einkareknum heilsugæslustöðvum, án þess að sýnt sé að það bitni nokkuð á gæðum. Hvers vegna ekki að láta markaðslögmálin um að leysa vandann?

Á Læknavaktinni sem er einkarekin vinna sömu læknar og á heilsugæslustöðvum. Eitt sinn spurði ég lækni þar, hvers vegna biðin væri minni á Læknavaktinni og afgreiðslan hraðari. Hann var fljótur til svars, það væri afar einfalt – hvatinn væri meiri.

Svo eru það spítalarnir. Þegar fólk veikist og kemst ekki að á heilsugæslustöðvum, þá hrekst það á yfirfulla bráðamóttöku í Fossvogi. Það á einnig við um fólk sem ekki kemst að á hjúkrunarheimilum, en hefur ekki heilsu til að búa heima hjá sér. Ég þekki fólk sem hefur gripið til þess ráðs að skilja aldrað foreldri eftir á bráðamóttökunni, annars komst það ekki að hjá kerfinu.

Fyrir vikið fyllist bráðamóttakan og önnur spítalarými af fólki, sem aldrei hefði þurft að leita þangað, og fólk þarf að dúsa á göngunum með beinbrot eða alvarlegri kvilla.

Loks eru það hjúkrunarheimilin. Þar er skorturinn átakanlegur. Aldrað og heilsulaust fólk kemst ekki að og veldur það gríðarlegu álagi á fjölskyldur. Kostnaðurinn er ómældur við að hýsa hundruð manns í dýrum spítalarýmum, sem gætu verið í ódýrara úrræði.

Einkarekstur hefur gefist vel í umönnun aldraðra og mikill vilji er þar til að ráðast í að reisa ný hjúkrunarheimili. Þrátt fyrir að 700 manns bíði á hurðarhúninum og biðin hafi aldrei verið lengri, þá gerist sáralítið.

Löng og farsæl reynsla er af því á Norðurlöndum að nýta krafta einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu. Við mættum læra af því, tala minna um norræna velferðarlíkanið og gera meira til innleiða það.

Eigum við ekki bara að líta á það sem tækifæri?