„Ef ríkissjóður væri fyrirtæki á hlutabréfamarkaði væri rekstraráætlun ríkissjóðs tæplega trúverðug.“ Þetta skrifar Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital, í nýrri verðmatsgreiningu á eldisfyrirtækinu Kaldvík

Þar bendir hann á að sterkt raungengi krónunnar sé að grafa undan samkeppnisfærni útflutningsgreinanna og leiðir að því líkum að þrátt fyrir stórfelldar skattahækkanir hinnar miklu verkstjórnar Kristrúnar Frostadóttur sé hætt við því að skatttekjur ríkissjóðs muni dragast saman á komandi misserum. Snorri segir: „Það ætti flestum að vera ljóst, jafnvel þótt þekking á einstökum atvinnugreinum eða hagfræði sé takmörkuð. Skattlagningin gæti jafnvel snúist upp í andhverfu sína og skatttekjur ríkisins dregist saman vegna samdráttar sem skattahækkanir valda.“

Hrafnarnir telja að þetta sé holl lesning fyrir Guðmund Ara Sigurjónsson, tómstundafræðings og þingflokksformann Samfylkingarinnar, en sem kunnugt er þá útskýrði hann fyrir gestum á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi vor að hækkun á skattaprósentu hlyti óumflýjanlega að leiða til hærri skatttekna ríkisins. Hrafnarnir eiga von að Guðmundur Ari og fleiri munu fá ókeypis kennslustund og lögmál Laffer-kúrvunnar á næstunni.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom 30. júní 2025.