Í síðasta mánuði skrifaði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, grein í Fréttablaðið undir heitinu Viðburðaríkir dagar! þar sem hann tíundaði það sem hann taldi vel hafa tekist til í íslensku efnahagslífi.
Niðurlag greinarinnar var „Meginniðurstaðan er að Íslandi er borgið, við erum að komast fyrir vind eftir ótrúlegan ólgusjó af mannavöldum. Spurningin er aðeins hverjum við treystum fyrir framhaldinu, þeim sem stýrðu á strandstað eða hinum sem stýrðu út úr brimgarðinum aftur. Hve langt til baka man þjóðin?“
* * *
Þvert á digurbarkalegar yfirlýsingar Steingríms J. er staðreyndin sú að þrátt fyrir að raungengi krónunnar og þar með launakostnaður hér á landi sé í sögulegu lágmarki og að raunvextir séu jafnframt í sögulegu lágmarki, þá hefur atvinnuvegafjárfesting aldrei verið minni. Sem þýðir að Ísland er ekki að laga hagkerfi sitt að breyttum aðstæðum.
Undir eðlilegum kringumstæðum hefði viðvarandi lágt gengi krónunnar átt að leiða til mikillar uppbyggingar í útflutningsatvinnugreinum sem hefði átt að færa störf úr innflutningsatvinnugreinum, sem nutu góðs af allt of háu gengi krónunnar á bóluárunum, í gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar sem ættu að gera Íslandi kleift að vinna sig út úr skuldavandanum.
* * *
Þetta hefur ekki gerst og spáir Seðlabankinn að útflutningstekjur Íslands aukist ekki nema um 1,5-2% á ári næstu tvö árin. Í þessum dálki hefur margsinnis verið bent á að óvissa um lagaumhverfi hamli fjárfestingu og talsmenn atvinnulífsins hafa tekið í sama streng.
Þetta kemur fram í neikvæðu viðhorfi stjórnvalda til atvinnulífsins, á annað hundrað skattabreytinga, nýjum og jafnvel nýstárlegum túlkunum á skattareglum, skorti á samráði og jafnvel fautaskap í breytingum á skattheimtu eins og við breytingar á virðisaukaskatti gistiþjónustuaðila, pólitískri rammaáætlun um orkunýtingu, aðför stjórnvalda að sjávarútveginum og síðast en ekki síst gjaldeyrishöftum, sem stjórnvöld hafa ekki neina trúverðugu áætlun um að losa.
Umhverfi atvinnulífsins er að breytast úr almennum leikreglum í geðþóttaákvarðanir.
* * *
Því miður hafa stjórnvöld ekki sýnt neinn skilning á þessu eða nauðsyn þess að móta stöðugan og hagfelldan ramma um atvinnurekstur þannig að atvinnulífið geti gert langtímaáætlanir um fjárfestingar. Þess í stað hafa stjórnvöld reynt að lappa upp á fjárfestingastigið með sértækum aðgerðum byggðum á geðþótta. Það kom glöggt í ljós í síðasta sumar í umræðum um frumvarp til laga um fiskveiðistjórnunarkerfið sem gerði ráð fyrirstórauknum völdum ráðherra.
Gagnrýni á að frumvarpið gerði sumar útgerðir órekstrarhæfar var svarað með því að þær gætu leitað á náðir ráðuneytisins. Þessi hugsunarháttur er einnig ríkjandi í svokallaðri fjárfestingaáætlun stjórnvalda sem gengur út á það að skattleggja helstu útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginn og nota afraksturinn af því ásamt fjármununum sem ríkið tók að láni til að endurfjármagna bankana og láta stjórnmálamenn úthluta þeim í verkefni þeim þóknanleg. Það á að flytja fjármuni frá þeim sem skapa verðmæti til þeirra sem geta ekki staðið undir sér en segjast skapandi, já og gott ef ekki til þeirra sem skapa vandræði.
* * *
Í grein Steingríms í síðasta mánuði var þessi hugsunarháttur áréttaður en hann sagði um ný rammalög um stuðning við nýfjárfestingar: „Lögin bjóða upp á stuðning við innlendar sem erlendar nýfjárfestingar ef þær uppfylla tiltekin skilyrði. Það eru því ekki lengur einungis erlendar stóriðjufjárfestingar sem eiga kost á ívilnunum eins og áður var raunin.“ En til hvers þarf ívilnanir? Og hvers vegna einungis ef þær uppfylla tiltekin skilyrði?
Er arðbær fjárfesting og störfin sem þeim fylgja ekki jafn eftirsóknarverð ef hún verður í rótgrónum fyrirtækjum? Og ef nýfjárfesting sem uppfyllir ákveðin skilyrði þarf sérstakar ívilnanir til að verða að veruleika, hvað eru þá mörg önnur fjárfestingaverkefni sem ekki uppfylla þessi skilyrði sem ekki verða að veruleika? Ætli þar kunni ekki að vera að leita skýringarinnar á að fjárfesting er í sögulegu lágmarki?
* * *
Nú hefur Steingrímur J. Sigfússon lagt fram stjórnarfrumvarp á Alþingi um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Samkvæmt þessum samningi ef hann verður að veruleika er PCC, fyrirtækinu sem hyggst reisa kísilverið í kjördæmi Steingríms, tryggð veruleg forréttindi umfram önnur fyrirtæki á Íslandi. Sem erlent fyrirtæki nýtur það þegar þeirra forréttinda að geta fjárfest í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans sem veitir u.þ.b. 20% afslátt og samningurinn sem Steingrímur óskar eftir að gera er til viðbótar við þau forréttindi sem stjórnvöldum var heimilað að semja við um fyrirtæki í lögum nr. 99 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi frá árinu 2010.
Í greinargerðinni með frumvarpinu segir: „Í viðræðum við PCC SE sem semur fyrir hönd hins íslenska félags, PCC BakkiSilicon hf., hefur komið skýrt fram að veiting ívilnana, sérstaklega í upphafi verkefnisins, sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi.“
* * *
Ívilnanirnar sem fyrirtækinu eru lofaðar eru að fyrirtækið þarf ekki að greiða nema 15% tekjuskatt í tíu ár, en þó ekki lengur en í 14 eftirfjárfestingasamningurinn er undirritaður, tekjuskatturinn sem venjuleg fyrirtæki greiða er 20%. Ef tekjuskattur fyrirtækja er lækkaður niður fyrir 15% á tímabilinu nýtur fyrirtækið þess og ef hann er hækkaður aftur mun tekjuskattur fyrirtækisins aldrei fara upp fyrir 15% á tímabilinu.
Nú er engin ástæða til þess að sjá ofsjónum yfir því að fyrirtæki í kjördæmi Steingríms J. þurfi ekki að greiða hærri tekjuskatt en var við lýði áður en Steingrímur komst til valda. En ef 15% tekjuskattur er nauðsynlegur til að örva fjárfestingu, hvers vegna er hann þá ekki almennur?
Og ætli það hefði ekki jákvæð áhrif á fjárfestingu ef fyrirtæki gætu samið um þak á tekjuskatt sinn tíu ár fram í tímann? Steingrímur J. getur barið sér á brjóst í kjördæmi sínu á kosningaári fyrir hagfellt skattaumhverfi PCC, en hvernig ætlar hann og aðrir stjórnarliðar að svara fyrir litla fjárfestingu og atvinnusköpun í öðrum kjördæmum?
* * *
Þetta eru ekki einu forréttindin sem til stendur að veita fyrirtækinu heldur er það jafnframt undanþegið stimpilgjöldum og almennu tryggingagjaldi sem jafngildir 5,3% afslætti af launagreiðslum.
Í greinargerð með frumvarpinu eru ofangreindar ívilnanir metnar á 1-1,5 milljarða á tíu ára tímabili. Síðar segir: „Ekki er því um bein útgjöld að ræða en ljóst er að ríkissjóður verður af þessum tekjum.“ Skattalækkanir til annarra eru heldur ekki bein útgjöld frekar en þessar ívilnanir.
Núverandi stjórnarflokkar hafa haldið því fram að Ísland „hafi ekki efni á því að lækka skatta“, þar er hlutunum snúið á haus. Við höfum ekki efni á skattkerfi sem kæfir fjárfestingu og það þarf að laga útgjöld ríkisins að tekjum þess en ekki öfugt. Þessu til viðbótar ætlar Steingrímur að lofa fyrir hönd skattgreiðenda að þeir taki þátt í undirbúningi lóðar fyrir verksmiðjuna og lofar PCC 538 milljónum króna til þess verkefnis og skattgreiðendur munu jafnframt taka þátt í þjálfunarkostnaði starfsmanna og er gert ráð fyrir 222 m.kr. í það.
Samtals nemur því bein meðgjöf skattgreiðenda 760 m.kr. Þessu til viðbótar mun sveitarfélagið Norðurþing, sem er illa statt fjárhagslega, veita 30% afslátt af gatnagerðargjöldum, 50% afslátt af fasteignagjöldum og hafnarsjóður Norðurþings mun veita félaginu 40% afslátt af vörugjöldum.
Samhliða þessu hefur Steingrímur lagt fram stjórnarfrumvarp um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Í því er gert ráð fyrir fjárveitingu til Vegargerðarinnar, allt að 1.800 m.kr., til vegagerðar á milli iðnaðarsvæðisins og Húsavíkurhafnar og 819 m.kr. víkjandi láni til Húsavíkurhafnar til hafnarframkvæmda.
* * *
Þetta eru þær ívilnanir og fyrirsjáanleiki í skattheimtu sem Steingrímur J. Sigfússon telur sig þurfa til að stuðla að fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu í kjördæmi sínu. Steingrímur J Sigfússon og aðrir stuðningsmenn frumvarpsins, ef einhverjir eru, skulda landsmönnum öllum skýringu á því hvers vegna atvinnulífinu í landinu öllu eru ekki búin sambærileg skilyrði.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu 7. mars 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.