Helsta fréttamál síðustu viku var undirskriftalisti sem Eva Lín Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, stendur fyrir á þjónustugátt stjórnvalda, Ísland.is. Þeir sem skrifa undir segjast ekki bera traust til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Um fjörutíu þúsund manns hafa skrifað undir listann.

Þegar listinn er lauslega skoðaður vekur athygli hversu margir kusu að koma ekki fram undir nafni þegar þeir skrifuðu undir. Furðu sætir að enginn fjölmiðill hafi notað það sem tilefni til að ræða við Atla Þór Fanndal, framkvæmdastjóra Transparency International á Íslandi, um þöggunina í þjóðfélaginu. En hvað um það.

Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku var rætt við stjórnmálafræðing til að leggja hlutlaust mat á þessa undirskriftasöfnun og gildi hennar. Stjórnmálafræðingurinn er Birgir Hermannsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í ráðherrastól og eiginmaður Sigríðar Ingibjargar Ingadóttir, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar.
Reyndar var Birgir hófstilltur – mun hófstilltari en fréttamaðurinn sem tók viðtalið við hann. Hann benti einfaldlega á að Bjarni Benediktsson væri umdeildur stjórnmálamaður og í því fælust engin tíðindi. Hægt er að taka undir þetta sjónarmið en samt sem áður tókst fjölmiðlum að birta um fjörutíu fréttir um söfnunina.

Nú eru fjörutíu þúsund sæmilegur fjöldi. En eins og bent er á í leiðara Morgunblaðsins á mánudag ber að skoða hann í samhengi. Í leiðaranum segir:

„Í alþingiskosningunum 2021 kusu 200 þúsund manns; þar af greiddu 151 þúsund Sjálfstæðisflokknum ekki atkvæði sitt.

Er það til marks um eitthvað sérstakt þegar aðeins fjórðungur þeirra sem ekki kusu Sjálfstæðisflokkinn vill ekki að formaður hans verði forsætisráðherra, þegar 74% þeirra gera ekki athugasemdir við það? Að innan við helmingur atkvæða stjórnarandstöðunnar sé á móti því. Það styrkir Bjarna enn frekar.


Ekki skal gera lítið úr því að 10% landsmanna tjá sig með þeim hætti, þó það sé skrýtið að tala um undirskriftasöfnun þegar enginn skrifar í raun undir og margir nafnlaust. En er það á einhvern hátt þyngra á metunum en þegar menn láta sér líka við hitt og þeta félagsmiðlum?“

***

Um átta hundruð Sjálfstæðismenn sóttu svo fund með Bjarna Benediktssyni á Nordica á laugardag. Þrátt fyrir mikinn áhuga fjölmiðla á undirskriftasöfnuninni sá enginn fjölmiðill ástæðu til að segja frá þeirri staðreynd að enginn af þessum fjörutíu þúsund sem skrifuðu undir sáu ástæðu til þess að mótmæla veru Bjarna í stól forsætisráðherra.

***

Almælt tíðindi og augljós sannindi eru ekki sérlega fréttnæm. Eigi að síður sá Ríkisútvarpið ástæðu til þess að segja frá því í hádegisfréttum á laugardag að ef Landsbankinn selur tryggingafélagið TM á lægra verði en það var keypt á muni bankinn tapa á viðskiptunum.

Fréttastofan hafði upp á Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformanni Viðreisnar, og fékk hana til að flytja landsmönnum þessi miklu tíðindi.

***

Körfuknattleikur er móðir allra íþrótta eins og allir vita. Nú stendur yfir úrslitakeppnin í Subway-deildinni og er spennan mikil. Deildin hefur sjaldan eða aldrei verið eins jöfn og nú og gæðin sjaldan meiri.

Það er full ástæða til þess að hrósa Sýn, sem er með sýningarréttinn á deildinni, fyrir skemmtilega þáttargerð og faglega umgjörð í kringum leikina. Margir óttuðust að erfitt yrði að fylla upp í skarðið sem Kjartan Atli Kjartansson skildi eftir sig þegar hann þurfti að láta af því að stýra körfuknattleiksumfjöllun Stöðvar 2 þegar ljóst varð að liðið sem hann þjálfar, Álftanes, léki í efstu deild í vetur.

Stefán Árni Pálsson tók við keflinu af Kjartani og hefur staðið sig vel og það sama má segja um alla þá sem koma að umfjöllun Stöðvar 2 um körfuknattleik karla og kvenna.

***

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um fundargerð stjórnar Ríkisútvarpsins. Umfjöllunarefnið á fundinum var ársuppgjör ríkismiðilsins. Í fundargerðinni er fjallað um skýrslu endurskoðenda á ársreikningnum. Þar kemur fram að handbært fé frá rekstri nam 460 milljónum króna og lækkaði um 290 milljónir milli ára. Fram kemur að lækkunin skýrist að stærstum hluta af auknum birgðum sýningarrétta. Birgðirnar námu samtals 2,9 milljörðum við árslok 2023.

Fram kemur í fundargerðinni að reynt var að draga úr rekstrarkostnaði í fyrra meðal annars með því að fresta dagskrárliðum sem skýrir hækkun á virði sýningarrétta milli ára. Endurskoðendur benda á að stjórnendur hefðu átt að draga úr innkaupum á sama tíma og reynt var að koma böndum á rekstrarkostnað á móti frestuðum dagskrárliðum. Tap hefði orðið á rekstrinum ef ekki hefði komið til frestunar sýninga á síðari hluta ársins.
Það að Ríkisútvarpið hafi reynt að fegra fjárhaginn með því að fresta sýningu á efni sem keypt var á rekstrarárinu útskýrir ágætlega hversu fátt hefur verið um fína drætti í sjónvarpsdagskrá vetrarins, sérstaklega þegar kemur að erlendum þáttaröðum.

Annars vekur það athygli við ársreikning Ríkisútvarpsins að stofnuninni halda engin bönd undir stjórn Stefáns Eiríkssonar og umsvif RÚV aukast meðan aðrir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja.

Þannig námu rekstrartekjur Ríkisútvarpsins tæpum níu milljörðum í fyrra og voru tekjur stofnunarinnar af samkeppnisrekstri tæpir þrír milljarðar. Þar af voru seldar auglýsingar fyrir 2.463 milljónir króna. Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu fyrr á þessu gerir stjórn Ríkisútvarpsins ráð fyrir að auglýsingatekjur muni aukast um 17,4% á þessu ári. Gangi það eftir verða auglýsingatekjurnar því hátt í þrír milljarðar á árinu.

Eins og ofangreindar tölur gefa til kynna hefur RÚV vaxið ásmegin á auglýsingamarkaði í samkeppni við einkarekna miðla á undanförnum árum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í síðustu viku námu samanlagðar tekjur íslenskra fjölmiðla af auglýsingasölu tólf milljörðum árið 2022. Frá árinu 2000 hefur hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla aukist úr 15% í 20% og sjónvarps úr 32% í 56%. Þetta er þvert á öll markmið stjórnvalda um að draga úr vægi Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 17. apríl 2024.