„Ég kem að máltækni úr heimi gervigreindar en hef kynnst henni vel undanfarið í vinnu við mótun Máltækniáætlunar menningar- og viðskiptaráðuneytið. Það hefur verið ótrúlegur kraftur á þessu sviði síðustu misseri,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni.

Hún segir fyrirsjá stjórnvalda og íslenska máltæknisamfélagsins hafa gert það að verkum að nú sé raunverulega hægt að tryggja að íslenskan verði hluti af hraðri framþróun máltækni á næstu árum. Verkefnin framundan hjá Almannarómi snúist um að hagnýta tæknina sem er nú þegar til staðar, kynna hana innan- og utanlands, og halda áfram uppbyggingu innviða með því að veita fjármagn og stuðningi til íslenskra máltæknifyrirtækja.

„Nú fer púður í að kynna íslenska máltækni fyrir stofnunum og fyrirtækjum, bæði innan og utanlands. Ég held að það séu ótal ónýtt tækifæri þar til innleiðingar og hagnýtingar á því sem þegar er til. Svo þurfum við að fara út í heim og hitta stóru fyrirtækin, til dæmis í Bandaríkjunum, sem eru leiðandi á þessu sviði og tala fyrir því að íslenskan verði hluti af þeirra lausnum.“

Lilja á þrjú börn sem öll eru fimm ára og yngri og segist hún reyna að tengja hreyfingu saman við samveru með fjölskyldunni. Þá segist hún mikil bókmenntaáhugakona og kallar sig skúffuskáld.

„Mér hefur alltaf fundist gaman að skrifa og lesa, og er núna að sækja námskeið í ritlist. Ég var alin upp af íslenskufræðingi sem las fyrir mig Þórberg Þórðarson þegar ég var fjögurra ára, sem hefur skilað sér í því að ég er skúffuskáld í dag,“ segir Lilja og hlær.

Viðtalið við Lilju birtist í heild sinni í Viðskiptablaði vikunnar.