„Ég hlakka til að ferðast um landið og hitta matvælaframleiðendur og aðstoða þá við að auka matvælaöryggið,“ segir Rúnar Birgisson sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Aquatiq á Íslandi, en hann hóf störf í febrúar sl. Rúnar hefur langa reynslu af störfum í sjávarútvegi, og hefur meðal annars starfað fyrir Marel í Seattle síðastliðin tíu ár og þar á undan hjá Marel á Íslandi í tæp fimmtán ár.

Aquatiq er með skrifstofur í hjarta sjávarútvegs og nýsköpunar í Sjávarklasanum við Granda í Reykjavík. Fyrirtækið hyggst þjónusta sjávarútveg, eldisiðnað og matvælavinnslur hér á landi. „Aquatiq býður m.a. upp á vörur sem tengjast matvælaöryggi en þar má nefna ýmis þvottakerfi fyrir alla matvælavinnslu, þar á meðal þvottaróbóta fyrir fiskeldiskör í landeldi til að þrífa þau sjálfvirkt og koma þannig í veg fyrir ýmsa sjúkdóma.“

Rúnar er nýkominn til baka af sjávarútvegssýningunni í Barselóna þar sem Aquatiq AS var með bás og segist spenntur fyrir komandi tímum hjá félaginu á Íslandi. „Þar sem ég hef verið búsettur í Seattle síðustu tíu ár, þá var ég svolítið hræddur um að gamla tengslanetið mitt í Evrópu væri komið á eftirlaun, en svo var nú aldeilis ekki. Ég hitti alveg ótrúlegan fjölda af fólki úr iðnaðinum frá mörgum heimshlutum og get sagt að ég náði markmiðum mínum að hitta sem flesta af þeim sem eru eða hyggja á eldi og vinnslu á laxi á Íslandi.“

Utan vinnu hefur Rúnar gaman af alls konar útivist, enda gamall björgunarsveitarmaður. „Ég nýtti vorið og keypti mér gönguskíði og náði fimm ferðum í Bláfjöll áður en ég fór til Barselóna. Einnig hef ég mjög gaman af ljósmyndun og það verður gaman að hafa myndavélina með á ferð um landið. Þau tíu ár sem ég bjó í Bandaríkjunum þræddi ég þjóðgarðana og get ekki beðið eftir að heimsækja fleiri. Í sumar mun ég síðan upplifa allt það besta sem Skotland hefur upp á að bjóða með góðum vinum frá Bandaríkjunum. Lífið er núna og það er skemmtilegt sama hvað verkefnið er.“

Viðtalið við Rúnar birtist í heild sinni í Viðskiptablaði vikunnar.