Metsöluhöfundurinn Scott Galloway gaf nýlega út bókina The Algebra of Wealth en hann hefur meðal annars gefið út bækurnar The Algebra of Happiness og Post Corona. Scott er prófessor í markaðsfræði við NYU Stern School of Business og hefur setið í stjórn nokkurra fyrirtækja.

Bókin er sögð vera nauðsynlegur leiðarvísir þegar kemur að auð og velgengni í lífinu en í henni útskýrir Scott nokkrar helstu reglur um fjárhagslegan árangur í hagkerfi nútímans.

Hann segir meðal annars að starfsmenn í dag hafi meiri möguleika og hreyfanleika en nokkur önnur kynslóð sem kom á undan. Sú kynslóð standi aftur á móti frammi fyrir mörgum áskorunum, þar á meðal verðbólgu, skorti á vinnuafli og sveiflum í húsnæðis- og loftslagsmálum.

Scott leggur til að mynda áherslu á að finna og fylgja hæfileikunum sínum þegar kemur að starfsákvörðunum frekar en ástríðu. Hann útskýrir einnig hvaða skref lesandi ætti að taka til að gera áætlanir og ráðleggur að notast við stóuspeki til að lágmarka útgjöld og þróa betri fjármálavenjur.

Í bókinni gagnrýnir Scott einnig núverandi efnahagsþróun í Bandaríkjunum og þá sérstaklega hvernig hún kemur verst niður á ungu fólki. Hann segir að skattkerfið þar í landi verðlauni það sem hann kallar ofurstétt milljarðamæringa.

„Í Bandaríkjunum höfum við ákveðið að verðlauna þetta fólk þannig að ef það vinnur gullmedalíuna þá fær það líka silfrið og bronsið. Tveir stærstu skattaafslættirnir eru til dæmis fyrir fjármagnstekjur og veðlánavexti og hver nýtur góðs af því? Fólk á mínum aldri sem á heimili og hlutabréf.“

Hann bendir á að í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna hafi velgengni þrítugra einstaklinga ekki farið fram úr velgengni foreldra þeirra og að ungt fólk hafi fulla ástæðu til að vera reitt.

„Ungt fólk er brjálað og hefur fulla ástæðu til að vera brjálað. Það lítur í kringum sig og sér auðinn rjúka upp meðal ákveðinna atvinnugreina og meðal fólks á mínum aldri á meðan það er að þjást. Krakkarnir okkar eru meiri kvíða, eru þyngri, þunglyndari og glíma við meiri fíkn einmitt vegna þess að við höfum tekið markvissa ákvörðun um að færa auðinn yfir á eldra fólk á kreditkorti ungu kynslóðarinnar,“ segir Scott.