Einfalt og skynsamlegt regluverk er lykilatriði fyrir samkeppnishæfni Íslands. Flókið regluverk, þar sem lögð er þyngri reglubyrði á íslenzk fyrirtæki en keppinauta þeirra í samkeppnislöndum, dregur hins vegar úr samkeppnishæfni.

Flóknar reglur eru oft settar í göfugum tilgangi og í þágu góðra markmiða, en það hlýtur stöðugt að þurfa að skoða hvort þær stuðli raunverulega að því að markmiðin náist. Einn lagabálkur, sem þarfnast klárlega endurskoðunar, er löggjöfin um jafnlaunavottun og -staðfestingu.

Það hefur því miður gengið eftir, sem Félag atvinnurekenda og margir aðrir vöruðu við þegar sú löggjöf var í undirbúningi, að hún hefur reynzt alltof þung í vöfum og dýr fyrir minni fyrirtækin sem hún tekur til, þ.e. fyrirtæki með ca. 25-100 starfsmenn. Mörg fyrirtæki á því stærðarbili eru hvorki með mannauðsdeild né -stjóra. Þau greiða háar fjárhæðir fyrir utanaðkomandi ráðgjöf vegna vottunarinnar og auk þess fer gríðarleg vinna stjórnenda í hana. Kannanir FA meðal félagsmanna sýna mikinn viðsnúning í viðhorfum þeirra frá því löggjöfin tók gildi; í upphafi var meirihlutinn jákvæður gagnvart henni en nú er óánægja stjórnenda og eigenda fyrirtækja yfirgnæfandi.

Á sama tíma sýna rannsóknir Hagstofunnar og óháðra fræðimanna að innleiðing jafnlaunastaðalsins hefur ekki haft bein áhrif á launamun kynjanna og ekki er marktækur munur á launamun hjá fyrirtækjum sem hafa innleitt staðalinn og hinum, sem ekki hafa gert það.

Dómsmálaráðherra hefur boðað að löggjöfin um jafnlaunavottun verði endurskoðuð og m.a. tekið mið af launagegnsæistilskipun Evrópusambandsins, sem tekin verður upp í EES-samninginn. Sú tilskipun kveður á um birtingu jafnlaunaupplýsinga, en tekur eingöngu til 100 fyrirtækja eða stærri. Við endurskoðunina er eina vitið að miða skyldur fyrirtækja við það stærðarmark, en íþyngja ekki minni fyrirtækjum með stífari reglum en sambærileg fyrirtæki annars staðar á EES búa við.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.