Hrafnarnir sjá að eitt af fjölmörgum óskabörnum útsvarsgreiðenda í Reykjavík, Malbikunarstöðin Höfða, skilaði ríflega 200 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári.
Hrafnarnir eiga erfitt með að skilja hvers vegna Reykjavíkurborg rekur malbikunarstöð í harðri samkeppni við einkafyrirtæki – samkeppni sem Malbikunarstöðin fer halloka í, en velta félagsins hefur dregist mikið saman á undanförnum árum. Hildur Björnsdóttir og hennar fólk í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hafa tvisvar á undanförnum árum lagt fram tillögu um að reksturinn verði seldur, en þeim hefur verið vísað frá. Reyndar hefur sala malbikunarstöðvarinnar verið eina áþreifanlega stefnumál Viðreisnar í borginni, en borgarfulltrúar flokksins hreyfðu ekki við málinu þegar þeir voru í meirihluta á árunum 2018-2025.
Pawel Bartoszek, fyrrverandi borgarfulltrúi og núverandi þingmaður Viðreisnar, útskýrði stefnuna í aðsendri grein í Viðskipta blaðinu árið 2022 með því að segja að flokkurinn vildi vanda sig svo mikið við söluna. Síðan þá hefur veltan hrunið, malbikunarstöðin staðið í kostnaðarsömum flutningum úr borginni til Hafnarfjarðar, og virði félagsins lækkað enn frekar.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.