Það vekur athygli hrafnanna að börn áhrifafólks í íslensku atvinnulífi hafa verið á hreyfingu á íslenskum vinnumarkaði að undanförnu. Svo virðist sem straumurinn liggi til Jóns Guðna Ómarssonar og hans fólks hjá Íslandsbanka.

Hrafnarnir sjá samkenni milli þessara áherslu Jóns Guðna annars vegar og hvernig Todd Boehly, eigandi Chelsea, hefur stýrt leikmannamálum félagsins: Festir fjöldan allan af efnilegum leikmönnum á löngum samningum.

Todd Boehly, einn eigenda Chelsea.
Todd Boehly, einn eigenda Chelsea.
© epa (epa)

Þannig var tilkynnt í síðustu viku að Orri Heiðarsson Guðjónssonar fjárfestis hafi verið ráðinn í hlutabréfamiðlun bankans. Fyrir á fleti í bankanum er meðal annars Helena Wessman dóttir Róberts í fyrirtækjaráðgjöf bankans og það á einnig við um Anton Felix sem er sonur Jóns Ásgeirs Jóhannssonar athafnamanns og fjárfestis. Allt er þetta vel menntað fólk með reynslu að baki í fjármálageiranum og vafalaust bankanum mikill liðsstyrkur.

Íslandssjóðir, dótturfélaga Íslandsbanka, virðist þó vera menningarlega sinnaðri þegar kemur að mannaráðningum. Þannig réðu þeir til sín Jóhann Óskar Jóhannsson, hagfræðing og fyrrverandi blaðamann Viðskiptablaðsins, til sín í vor en hann er sonur Jóhanns Helgasonar hins dáða lagahöfunds og eins af fremstu sonum Keflvíkingur.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom 30. júní 2025.