Á dögunum sótti íslenski hjólaframleiðandinn Lauf Cycles um skráningu vörumerkjanna Seigla, Úthald og Elja. Orðmerkin skírskota til eiginleika sem eru mikilvægir í reiðhjólaheiminum: Seigla fyrir malarhjól, úthald fyrir götuhjólreiðar og elja þegar hjólað er á fjöllum. Vörumerkin bætast í safn skráðra hugverkaréttinda félagsins, einkaleyfa og vörumerkja, sem njóta réttarverndar á helstu sölu-, samkeppnis- og framleiðslumörkuðum. Lauf byggir starfsemi sína á hugviti og nýsköpun og hefur frá upphafi haldið þétt utan um hugverk sín, í því skyni að tryggja sér samkeppnisforskot og styrkja grundvöll félagsins til vaxtar og útrásar. Hvert einkaleyfi getur veitt einkarétt til hagnýtingar á uppfinningum fyrirtækisins til tuttugu ára en vörumerkin vara svo lengi sem skráningu þeirra er haldið við. Vandað val á merki, trygg vernd og markviss uppbygging viðskiptavildar með áherslu á gæði vöru og þjónustu, fléttað við ímynd nýsköpunar og metnaðarfullrar vöruþróunar, hefur markað Lauf sérstöðu á alþjóðlegum markaði. Þetta eru eignir félagsins, verndaðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Í eðli sínu eru hugverkaréttindi til þess fallin að laða að fjárfesta og geta sem slík gengið kaupum og sölum. Þau fela raunar gjarnan í sér helstu verðmæti nýsköpunarfyrirtækja. Hægt er að framselja þessar óáþreifanlegu eignir í heild eða að hluta og veita þannig t.a.m. leyfi til hagnýtingar þeirra um tiltekinn tíma, á tilteknu svæði o.s.frv. Þá er beinlínis gengið út frá því í löggjöf á sviði einkaleyfaréttar og vörumerkjaréttar að hugverkaréttindi séu lögð að veði til tryggingar lántöku.

Á undanförnum árum hafa hérlendir frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki – og rótgrónari fyrirtæki reyndar einnig – vaknað til vitundar um mikilvægi þess að tryggja örugga vernd þeirra verðmæta sem hugverkin fela í sér. Fjárfestar og lánveitendur hafa hins vegar ekki tekið við sér með sama hætti. Segja má að þarna fari í raun ekki saman hljóð og mynd. Hugverkasafnið birtist ekki í rekstrartölum félaga en til lengri tíma litið eru það einmitt þessi réttindi sem leggja grunninn að velgengni þeirra ef vel er á haldið. Fjármögnun á innlendum markaði krefst seiglu, úthalds og elju. Hjá hugverkadrifnum fyrirtækjum má auðveldlega bæta í púkkið eiginleikunum útsjónarsemi, aðlögunarhæfni, þolinmæði og þrautseigju.

Alþjóðahugverkastofnunin, WIPO, ýtti nýverið úr vör átaki til þess að færa hugverkadrifna fjármögnun af jaðrinum - Moving IP Finance from the Margins to the Mainstream. Stofnunin bendir á að óáþreifanlegar eignir séu drifkraftur hagkerfa nútímans og vægi þeirra aukist ört. Samkvæmt mælingum Standard and Poor‘s standa slíkar eignir undir 90% af verðmæti S&P 500. WIPO undirstrikar að hugverk fyrirtækja ákvarði möguleika þeirra til vaxtar frekar en hefðbundnar eignir sem þreifa má á. Þrátt fyrir þetta sé enn tregða til fjármögnunar á þessum grunni sem takmarki óhæfilega möguleika nýsköpunar- og sprotafyrirtækja til vaxtar og viðgangs. Könnun stofnunarinnar hefur þó leitt í ljós aukna áherslu stjórnvalda, einkaaðila og fjármálastofnana á hugverkadrifna fjármögnun, hvort tveggja í tengslum við hlutafjáraukningu og -viðskipti sem og lánveitingar. Gripið hefur verið til aðgerða í því skyni að auðvelda mat á virði hugverkaréttinda og liðka fyrir veðsetningu þeirra. Síðast en ekki síst hefur víða verið staðið að vitundarvakningu; þjálfun, fræðslu og uppbyggingu þekkingar innan fjármálageirans.

Átak Alþjóðahugverkastofnunarinnar felur í sér þrjú áherslusvið: Í fyrsta lagi aukna umræðu um þau ónýttu tækifæri sem felast í hugverkadrifinni fjármögnun. Í öðru lagi aukna fræðslu, rannsóknir og greiningu á alþjóðlegri þróun og þeim aðgerðum sem hafa skilað mestum árangri. Í þriðja lagi aukinn stuðning, tól og tæki, til þess að brúa bilið milli rétthafa og lánveitenda. Það er mikilvægt að grípa þessa öldu svo Ísland verði ekki eftirbátur annarra þjóða þegar kemur að fjármögnun á grunni hugverkaréttinda. Hún á ekki að vera jaðarsport!

Höfundur er stjórnarformaður Lauf Cycles hf. og sérfræðingur á sviði hugverkaréttar og nýsköpunar.