Í Viðskiptablaðinu í þessari viku er áhugaverð fréttaskýring um þróun hagnaðarhlutfalls íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum. Úttekt á rekstrarniðurstöðu tæplega 200 af 300 stærstu fyrirtækjum landsins sýnir að vegið hagnaðarhlutfall var 6,6% á árinu 2024, samanborið við 7,3% árið áður. Hagnaðarhlutfall 300 stærstu fyrirtækja landsins var 5,7% árið 2023, samanborið við 8,6% árið 2022, 11,4% árið 2021 og 2,9% árið 2020. Hagnaðarhlutfallið var að jafnaði um 7,6% á árunum 2014-2023.
Þetta þýðir, með öðrum orðum, að skattstofn ríkisins er að dragast saman á sama tíma og ríkisstjórnin hefur horfið frá áformum um að leggja fram hallalaus fjárlög árið 2027. Samtímis er nýsamþykkt fjármálaáætlun uppfull af ófjármögnuðum fyrirheitum um útgjöld sem nema tugum milljarða króna. Í því samhengi má nefna ófjármögnuð fyrirheit vegna varnarmála, að ógleymdum kostnaði við fyrirhugaða vísitölutengingu bótagreiðslna og frumvarpið um víxlverkun örorkulífeyrissjóðsgreiðslna, sem felur í sér atlögu að ellilífeyrisþegum. Greiningar sýna að ellilífeyrisgreiðslur einstakra lífeyrissjóða gætu lækkað um allt að 5–7,5% ef frumvarpið verður samþykkt. Daði Már hefur að vísu lofað lífeyrissjóðunum að þeim verði þetta bætt upp – en það mun kosta sitt.
Stjórnarliðar hafa lýst fjármálaáætluninni sem „góðu siglingakorti inn í kjörtímabilið“. Slíkt segja einungis þeir sem setja kíkinn einatt fyrir blinda augað – því fjármálaáætlunin endurspeglar varla þann efnahagslega veruleika sem við blasir um þessar mundir.
Frægt er orðið þegar Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir á opnum fundi í vor að hækkun skattprósentu hlyti óumflýjanlega að leiða til hærri skatttekna ríkisins. Ekki verður þó gengið út frá því að þeir sem haldnir eru slíkri hugsunarvillu séu líklegir til að reynast góðir kortagerðarmenn.
Miðað við þróun hagnaðarhlutfallsins hjá íslenskum fyrirtækjum má gera ráð fyrir að ríkið verði af allt að fimm milljörðum króna í formi lækkandi skattstofns. Sé það ekki nægjanlegt áhyggjuefni bætist við að horfurnar í efnahagsmálum eru lítt bjartar. Hátt raungengi íslensku krónunnar hefur þrengt mjög að útflutningsatvinnugreinum, og á sama tíma hefur tollastefna Donalds Trump þrengt að alþjóðaviðskiptum – og þeirra áhrifa á enn eftir að gæta að fullu.
Í þessu umhverfi hefur ríkisstjórnin ákveðið að margfalda veiðigjöld með útfærslu sem virðist sérstaklega til þess fallin að grafa undan verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Allt bendir til þess að ferðaþjónustan verði næsta skotmark ríkisstjórnarinnar.
En þessar skattahækkanir munu ekki skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs þegar upp er staðið, og leysa ekki þann vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir í efnahagsmálum – vanda sem augljós er þeim sem kunna að lesa milli línanna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Nú líður að því að Alþingi komi saman að nýju og taki til umfjöllunar fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Í þeirri umfjöllun verða að koma skýr svör við spurningunni hvort ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hafi engin önnur svör en að auka útgjöld og hækka skatta – og líkist þar með manninum sem stóð í fötunni og reyndi að hífa sig upp með handfanginu.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.