Undan­farin ár hefur undir­rituð í störfum sínum sem lög­maður veitt fjölda fyrir­tækja ráðgjöf er varðar mögu­leika þeirra á að ráða er­lenda sér­fræðinga til starfa og í því sam­bandi að­stoðað við að afla tíma­bundinna dvalar- og at­vinnu­leyfa fyrir slíka sér­fræðinga.

Undir­rituð hefur því, frá fyrstu hendi, kynnst mikilvægi slíkra heimilda fyrir fyrir­tæki með starf­semi hér á landi, ís­lenskra sem er­lendra, til að geta laðað að og ráðið til sín er­lenda sér­fræðinga í hin ýmsu störf og tíma­bundin verk­efni.

Hvort sem um er að ræða hug­búnaðar­fyrir­tæki í leit að tölvunar­fræðingum, nýsköpunar­fyrir­tæki í leit að sér­hæfðum verk­fræðingum, fram­leiðslu­fyrir­tækjum í leit að gæða­stjórum með reynslu af flóknum fram­leiðslu­að­ferðum eða bygginga­fyrir­tækjum í leit að verk­stjórum með þekkingu og reynslu af sér­hæfðum verk­efnum, er ljóst að skil­virkt dvalar- og at­vinnu­leyfis­kerfi skiptir sköpum fyrir ís­lenskan vinnu­markað og sam­keppnis­hæfni ís­lenskra fyrir­tækja.

Mikilvæg for­senda sam­keppnis­hæfni fyrir­tækja er að þau hafi raun­veru­lega mögu­leika á að ráða til sín sér­hæft starfs­fólk með nauð­syn­lega þekkingu, án til­lits til ríkis­fangs. Þetta þekkjum við vel í okkar helstu sam­keppnislöndum.

Í öðrum kafla laga nr. 97/2002 um at­vinnuréttindi út­lendinga er fjallað al­mennt um at­vinnu­leyfi, en laga­grund­völlur öflunar dvalar- og at­vinnu­leyfis er mis­munandi eftir því um hvaða aðstæður og at­vik eiga við hverju sinni. Þá er í 8. gr. nefndra laga fjallað um tíma­bundin at­vinnu­leyfi vegna starfa sem krefjast sér­fræðiþekkingar.

Þar segir m.a. að heimilt sé að veita tíma­bundið at­vinnu­leyfi vegna til­tekins starfs sem krefst sér­fræðiþekkingar, enda séu til­tekin skil­yrði upp­fyllt. Eru skil­yrðin meðal annars þau að hæft starfs­fólk fáist ekki á inn­lendum vinnu­markaði, né innan EES, EFTA-ríkja eða Færeyja eða þá að aðrar ástæður mæli með leyfis­veitingu.

Þá þarf jafn­framt að liggja fyrir ráðningar­samningur milli fyrir­tækisins sem á í hlut og þess fyrir­hugaða starfs­manns sem sækir um at­vinnu­leyfi. Ráðningar­samningurinn skal tryggja laun, tryggingar og önnur starfskjör sem eru al­gjör­lega til jafns (eða betri) við heima­menn í samræmi við ís­lensk lög og ís­lenska kjara­samninga, eins og þeir eru hverju sinni. Það er svo einnig nauð­syn­legt að afla um­sagnar við­eig­andi stéttarfélags sem annast skoðun á ráðningar­sam­bandi og kjörum þess og stað­festir að þau séu í samræmi við gildandi lög hverju sinni.

Um­sækjandi um at­vinnu­leyfi þarf þannig að hafa gert ráðningar­samning við at­vinnu­rekanda um að gegna til­teknu starfi þess eðlis að til þess þurfi sér­fræðiþekkingu og jafn­framt að sýna fram á að slík sér­fræðiþekking sé nauð­syn­leg hlutað­eig­andi fyrir­tæki.

Af ofan­greindri upp­talningu skil­yrða, sem þó er ekki tæmandi, má sjá að ljóst er að um­sóknar­ferli dvalar- og at­vinnu­leyfis á grund­velli sér­fræðiþekkingar hér á landi er fjarri því að vera ein­falt. Gera bæði Út­lendinga­stofnun og Vinnumála­stofnun lögum sam­kvæmt strangar kröfur til að nefnd skil­yrði séu upp­fyllt áður en leyfi er veitt og hafa þessar stofnanir víðtækar laga­heimildir til þess að kalla eftir gögnum til stað­festingar á sér­fræðiþekkingu viðkomandi starfs­manns.

Ný­leg um­ræða um al­var­lega mis­notkun á dvalar- og at­vinnu­leyfa­kerfinu hér á landi hefur rutt af stað um­ræðu meðal stjórn­mála­manna um nauð­syn þess að gera breytingar á kerfinu til þess að sporna við slíkri mis­notkun. Undir­rituð tekur að öllu leyti undir slík mark­mið og telur slíka skoðun tíma­bæra.

Kjarni málsins er þó að áfram verði staðið vörð um getu og raun­veru­lega mögu­leika fyrir­tækja á Ís­landi til að ráða til sín er­lenda sér­fræðinga í samræmi við þarfir fyrir­tækja hverju sinni.

Mis­notkun fárra má því ekki bitna á heildar­hags­munum fyrir­tækja á Ís­landi sem sannan­lega nýta sér þessar heimildir í þeim til­gangi sem þeim var ætlað, að tryggja nauð­syn­legan að­gang fyrir­tækja að er­lendri sér­fræðiþekkingu, ís­lenskum vinnu­markaði og sam­keppnis­hæfni Ís­lands til heilla.

Höfundur er lög­maður hjá Land Lög­mönnum.