Undanfarin ár hefur undirrituð í störfum sínum sem lögmaður veitt fjölda fyrirtækja ráðgjöf er varðar möguleika þeirra á að ráða erlenda sérfræðinga til starfa og í því sambandi aðstoðað við að afla tímabundinna dvalar- og atvinnuleyfa fyrir slíka sérfræðinga.
Undirrituð hefur því, frá fyrstu hendi, kynnst mikilvægi slíkra heimilda fyrir fyrirtæki með starfsemi hér á landi, íslenskra sem erlendra, til að geta laðað að og ráðið til sín erlenda sérfræðinga í hin ýmsu störf og tímabundin verkefni.
Hvort sem um er að ræða hugbúnaðarfyrirtæki í leit að tölvunarfræðingum, nýsköpunarfyrirtæki í leit að sérhæfðum verkfræðingum, framleiðslufyrirtækjum í leit að gæðastjórum með reynslu af flóknum framleiðsluaðferðum eða byggingafyrirtækjum í leit að verkstjórum með þekkingu og reynslu af sérhæfðum verkefnum, er ljóst að skilvirkt dvalar- og atvinnuleyfiskerfi skiptir sköpum fyrir íslenskan vinnumarkað og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
Mikilvæg forsenda samkeppnishæfni fyrirtækja er að þau hafi raunverulega möguleika á að ráða til sín sérhæft starfsfólk með nauðsynlega þekkingu, án tillits til ríkisfangs. Þetta þekkjum við vel í okkar helstu samkeppnislöndum.
Í öðrum kafla laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga er fjallað almennt um atvinnuleyfi, en lagagrundvöllur öflunar dvalar- og atvinnuleyfis er mismunandi eftir því um hvaða aðstæður og atvik eiga við hverju sinni. Þá er í 8. gr. nefndra laga fjallað um tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar.
Þar segir m.a. að heimilt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Eru skilyrðin meðal annars þau að hæft starfsfólk fáist ekki á innlendum vinnumarkaði, né innan EES, EFTA-ríkja eða Færeyja eða þá að aðrar ástæður mæli með leyfisveitingu.
Þá þarf jafnframt að liggja fyrir ráðningarsamningur milli fyrirtækisins sem á í hlut og þess fyrirhugaða starfsmanns sem sækir um atvinnuleyfi. Ráðningarsamningurinn skal tryggja laun, tryggingar og önnur starfskjör sem eru algjörlega til jafns (eða betri) við heimamenn í samræmi við íslensk lög og íslenska kjarasamninga, eins og þeir eru hverju sinni. Það er svo einnig nauðsynlegt að afla umsagnar viðeigandi stéttarfélags sem annast skoðun á ráðningarsambandi og kjörum þess og staðfestir að þau séu í samræmi við gildandi lög hverju sinni.
Umsækjandi um atvinnuleyfi þarf þannig að hafa gert ráðningarsamning við atvinnurekanda um að gegna tilteknu starfi þess eðlis að til þess þurfi sérfræðiþekkingu og jafnframt að sýna fram á að slík sérfræðiþekking sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki.
Af ofangreindri upptalningu skilyrða, sem þó er ekki tæmandi, má sjá að ljóst er að umsóknarferli dvalar- og atvinnuleyfis á grundvelli sérfræðiþekkingar hér á landi er fjarri því að vera einfalt. Gera bæði Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun lögum samkvæmt strangar kröfur til að nefnd skilyrði séu uppfyllt áður en leyfi er veitt og hafa þessar stofnanir víðtækar lagaheimildir til þess að kalla eftir gögnum til staðfestingar á sérfræðiþekkingu viðkomandi starfsmanns.
Nýleg umræða um alvarlega misnotkun á dvalar- og atvinnuleyfakerfinu hér á landi hefur rutt af stað umræðu meðal stjórnmálamanna um nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu til þess að sporna við slíkri misnotkun. Undirrituð tekur að öllu leyti undir slík markmið og telur slíka skoðun tímabæra.
Kjarni málsins er þó að áfram verði staðið vörð um getu og raunverulega möguleika fyrirtækja á Íslandi til að ráða til sín erlenda sérfræðinga í samræmi við þarfir fyrirtækja hverju sinni.
Misnotkun fárra má því ekki bitna á heildarhagsmunum fyrirtækja á Íslandi sem sannanlega nýta sér þessar heimildir í þeim tilgangi sem þeim var ætlað, að tryggja nauðsynlegan aðgang fyrirtækja að erlendri sérfræðiþekkingu, íslenskum vinnumarkaði og samkeppnishæfni Íslands til heilla.
Höfundur er lögmaður hjá Land Lögmönnum.