Fréttirnar sem bárust úr norskum fjölmiðlum hinn 25. júlí síðastliðinn um fyrirhugaða verndartolla á nær allan innfluttan kísilmálm á evrópskan markað kom til umfjöllunar hér heima eins og þruma úr heiðskíru lofti. En í raun og veru var þessi „þruma“ löngu komin á radar íslenskra stjórnvalda, hún hafði legið neðst í nærfataskúffunni í heila sjö mánuði.

Á þeim tíma hefðu stjórnvöld, þvert á flokka og m.a. í gegnum utanríkismálanefnd, getað hafið markvissa vinnu til að bregðast við málinu og verja hagsmuni Íslands. Þá hefði heimsókn framkvæmdastjóra Evrópusambandsins að sjálfsögðu átt að fela í sér mun stífari og markvissari viðræður um þetta tiltekna mál.

Æpandi þögn forsætisráðherrans

Hvernig má vera að þegar meira en vika er liðin frá því að málið varð opinbert, hafi Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra ekki vikið að því einu orði? Ekki til að tala kjark í þá sem bíða í nagandi óvissu um endanlega ákvörðun ESB, heldur til að gera forvígismönnum Evrópusambandsins ljóst að svona kemur enginn fram við vinaþjóð sem réttilega telur sig, í krafti EES-samningsins, vera hluta af innri markaði Evrópusambandsins og þar með hluti af þeirri aðfangakeðju sem fyrirhugað er að vernda.

Hér mætti forsætisráðherra horfa til framgöngu samstarfskonu sinnar, utanríkisráðherrans, sem hefur tæpitungulaust lýst því yfir að þessi tollaframkvæmd sé klárt brot á EES-samningnum.

Ljóst er að djúpstæður ágreiningur er milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB-ríkjanna hins vegar um lögmæti slíkra aðgerða. Ekki er um að ræða smávægilegt mál. Hér um er að ræða tillögu sem nær beint til innflutnings frá Íslandi og Noregi, með vísan í 112. og 113. gr. EES-samningsins.

Er þetta eitthvað sem við eigum að sætta okkur við? Er þetta mögulega byrjunin á einhverju stærra eða er um einangrað dæmi að ræða? Hvað með aðra málmvinnslu eða aðrar atvinnugreinar, svo dæmi séu tekin?

Áhrif á nærsamfélagið – Akranes og Hvalfjarðarsveit

Bæði Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit hafa sent frá sér harðorðar ályktanir um málið, og fulltrúar bæjar- og sveitastjórna, ásamt okkur þingmönnum kjördæmisins, hafa hitt utanríkisráðherra til að koma sjónarmiðum sveitarfélaganna og kjördæmisins á framfæri.

Bæjarstjóri Akraness bendir réttilega á að um sé að ræða meiriháttar áfall fyrir atvinnulífið á Akranesi ef dregið verður úr starfsemi Elkem. Hann nefnir jafnframt að frekari atvinnuuppbygging á Grundartanga sé í burðarliðnum, m.a. fiskeldisstöð og magnesíumverksmiðja sem fyrirhugað er að nýti varmaorku frá Elkem, og gætu þau áform því verið í uppnámi verði Ísland ekki undanskilið tollaálögum.

Er ekki skjól í EES-samningnum?

EES-samningurinn gengur út á að um einn markað sé að ræða með frjálsu flæði á vörum, fólki, fjármagni og þjónustu. En hver eru þá efnisleg rök Evrópusambandsins fyrir því að Ísland og Noregur eigi að sitja við sama borð og t.d. lönd í Asíu, þegar kemur að álagningu verndartolla eða ákvörðun lágmarksverðs inn á Evrópumarkað?

Í bréfi Evrópusambandsins til stjórnvalda styðst ráðstöfunin við 112. og 113. gr. EES-samningsins, sem fjalla um rétt til að beita einhliða aðgerðum ef upp koma alvarlegir þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar sem líklegt er að verði viðvarandi. Þó þarf að gæta meðalhófs í umfangi og tímalengd aðgerða.

Ég leyfi mér að draga stórlega í efa að útflutningur á unnum málmum frá Íslandi sé valdur að þeirri hættu sem steðjar að framleiðslu kísilmálms í Evrópu. Þvert á móti tel ég að Evrópa þurfi einmitt á þessum kísilmálmi frá Elkem á Íslandi að halda svo framleiðsla hinna ýmissa rafmagnstækja og stýribúnaðar geti gengið snurðulaust fyrir sig.

Ef þetta mál þróast á hinn versta veg gæti reynt á ákvæði EES-samningsins með áður óþekktum hætti. Í ljósi þróunar í alþjóðamálum, þar sem virðing fyrir milliríkjasamningum, alþjóðastofnunum og jafnræði ríkja hefur farið dvínandi, þarf það ekki að koma svo mjög á óvart.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.