Í ævintýrum hafa töfrasprotar kraft til að breyta veruleikanum. Þeir geta kveikt eld, opnað læstar dyr, læknað sár, fært fólk milli staða – eða jafnvel breytt gatslitnum flíkum í glæsilega samkvæmiskjóla. Í raunheimum er stundum lagt til að flókin vandamál megi leysa með einföldum aðgerðum, líkt og með töfrasprota. Slíkar hugmyndir byggja oft á þeirri trú að ein lítil breyting geti valdið stórum umbrotum með lágmarksfyrirhöfn. En ólíkt ævintýrum eru í veruleikanum sjaldnast til neinar einfaldar töfralausnir við flóknum vandamálum.

Töfrasproti: Lækkum ávöxtunarviðmið lífeyrissjóða

Sá töfrasproti sem oftast er veifað í fjármálakerfinu er að breyta núvirðingarkröfu lífeyrissjóða eða þeirri ávöxtunarkröfu sem sjóðirnir nota til að áætla verðmæti lífeyrisskuldbindinga. Lengi vel var því haldið fram að núvirðingarkrafan héldi uppi vöxtum í landinu og kæmi í veg fyrir að verðtryggðir vextir lækkuðu niður 3,5%. Um þetta voru ritaðar fjölmargar greinar þar sem sumir gengur svo langt að saka lífeyrissjóðina um að halda uppi háum vöxtum.

Síðar kom í ljós að vextir og ávöxtunarkrafa á markaði lækkaði langt niður fyrir 3,5% fyrst og fremst vegna þess að eftirspurn eftir fjárfestingarkostum var meiri en framboð. Við slíkar aðstæður hafa fjárfestar um fáa kosti að velja og sætta sig við lægri vexti á skuldabréfum eða innlánsreikningum. Núvirðingarkrafa við mat á skuldbindingum lífeyrissjóða hefur engin raunveruleg áhrif á vaxtastigið í landinu sem ræðst af efnahagsstigi eða framboði og eftirspurn eftir fjármagni.

Umræðan um núvirðingarkröfu einskorðast ekki bara við vaxtastig. Nýlega hafa komið fram hugmyndir um að breyta því þannig að það taki ekki lengur mið af raunvöxtum. Með því að breyta viðmiðinu úr 3,5% raunávöxtun í nafnávöxtun muni eftirspurn eftir verðtryggðum skuldabréfum minnka og vægi verðtryggingar í hagkerfinu lækka.

Þessi sproti er auðvitað gagnslaus. Í landi þar sem verðbólga er viðvarandi munu lífeyrissjóðir og einstaklingar alltaf sækjast eftir verðtryggðum skuldabréfum til að verja kaupmátt sjóðfélaga og sparifjáreiganda, óháð stuðli til að meta skuldbindingar. Verðbólgan er vandamálið en ekki ávöxtunarkrafa sem er notuð til að núvirða lífeyrisgreiðslur í framtíð

Töfrasproti: Afnemum verðtryggingu af lánum til einstaklinga

Margir hafa kallað eftir því að verðtryggð lán verði bönnuð og benda á að þau séu óhagstæð þar sem verðbætur leggjast við höfuðstól og lánin greiðast því hægar niður en óverðtryggð lán. Hærri höfuðstóll með tilheyrandi þyngri greiðslubyrði veldur því að heimili búi við óvissu um raunverulega skuldastöðu sína. Þetta mætti leysa með því að banna verðtryggingu til hagsbóta fyrir neytendur.

Lántakendur til langs tíma geta oftast valið hvort þeir vilja taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Verðtryggð lán hafa jafnari greiðslubyrði en óverðtryggð lán þar sem verðbólga leggst við höfuðstól sem verðbætur og dreifist yfir lánstímann. Þetta getur leitt til hærri heildargreiðslna þar sem hluti vaxtanna er í raun tekinn að láni. Óverðtryggð lán greiðast hins vegar yfirleitt hraðar niður, en greiðslubyrðin er hærri í upphafi. Vextir reiknast af höfuðstól og eru greiddir með næstu afborgun, sem getur valdið verulegu álagi í verðbólgu og óviðráðanlegri greiðslubyrði.

Það er engin lausn að banna verðtryggingu. Þegar verðbólga er viðvarandi vilja lánveitendur eingöngu veita óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Fáir ráða við greiðslubyrði af slíkum lánum í mikilli eða breytilegri verðbólgu. Við slíkar aðstæður eru verðtryggð illskásti kosturinn fyrir flesta. Vandamálið er auðvitað verðbólgan sjálf.

Töfrasproti: Tökum upp Evru og innleiðum evrópska vexti

Þeir sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið rökstyðja mál sitt gjarnan á því að þá taki Ísland upp evru sem leiði af sér hagstæðara vaxtastig. Bent er á að árum saman hafi vextir í Evrópu verið lægri en á Íslandi sem þýðir að innlendir lántakendur greiði meiri vexti en lántakendur í Evrulandi. Þannig gætu innlendir lántakendur sparað sér milljarða á ári og ráðstöfunartekjur hækkað samsvarandi.

Þetta hljómar vel en gengur ekki upp ef vel er athugað. Nafnvextir endurspegla yfirleitt tvennt: raunávöxtunarkröfu og vænta verðbólgu. Raunávöxtunarkrafan ræðst m.a. af efnahagsástandi og hækkar oft þegar hagvöxtur og umsvif aukast, þar sem eftirspurn eftir fjármagni eykst. Vænt verðbólga hækkar einnig nafnvexti, þar sem markaðsaðilar krefjast vaxta sem vega upp á móti rýrnun kaupmáttar. Verðbólga stafar oft af mikilli eftirspurn eða kostnaðarhækkunum, t.d. vegna launa. Ef laun hækka meira en framleiðni til lengri tíma neyðast fyrirtæki oft til að hækka verð til að mæta auknum kostnaði.

Sú aðgerð ein og sér að taka upp evru leiðir ekki sjálfkrafa til lækkunar vaxta nema hún hafi áhrif á efnahagslegar grunnstærðir á borð við umsvif í hagkerfinu og verðbólgu. Vextir ráðast ekki eingöngu af myntinni sjálfri heldur af þeim aðstæðum sem ríkja í hagkerfinu hverju sinni.

Hluti skýringar á því að vextir eru almennt hærri á Íslandi en á evrusvæðinu er að hér hefur hagvöxtur, eftirspurn og umsvif verið meiri. Undanfarinn áratug var hagvöxtur að meðaltali 2,3 prósentustigum hærri á Íslandi en í Evrópu. Verðbólga hefur einnig verið hærri hérlendis, meðal annars vegna þess að laun hækkuðu að jafnaði um 1% meira á Íslandi en í Evrópu, umfram verðbólgu.

Upptaka evru myndi því aðeins leiða til lægri vaxta ef hún kæmi í kjölfar eða samhliða breytingum sem draga úr verðbólguþrýstingi – svo sem minni hagvexti, lægri framleiðslukostnaði og hóflegri launaþróun. Líkleg afleiðing slíkrar aðlögunar er minni fjárfesting og lægri kaupmáttur.

Lágir vextir eru heldur ekki raunhæfur kostur í hagkerfi sem einkennist af miklum hagvexti og þenslu. Afleiðingin verður að öllum líkindum yfirsnúningur sem fyrr eða síðar endar með bakslagi og mögulega harðri lendingu.

Töfrasprotar virka bara í ævintýrum

Það sem flest ævintýri eiga sameiginlegt er að þau enda vel. Oft sigrar hið góða hið illa og söguhetjurnar lifa hamingjusamar til æviloka. Efnahagslegur veruleiki er hins vegar allt annar en þar duga yfirleitt engar einfaldar töfralausnir. Vilji menn breyta og leysa vandamál þarf oftast að ráðast að rót vandans og breyta hegðun með aðgerðum sem, oftar en ekki, krefjast aðhalds eða breyttra venja.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.