Ólíkt Malbikunarstöðinni og Colas hefur Malbikunarstöðin Höfði ekki keyrt á metnaðarfullum auglýsingaherferðum í sumar, þar sem malbik þessara einkafyrirtækja er dásamað.

Annað fyrirtæki í eigu borgarinnar hefur hins vegar staðið í slíku í sumar: ímyndarauglýsingar Carbfix, dótturfélags Orkuveitunnar, hafa verið áberandi í ljósvakamiðlum og á samfélagsmiðlum. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að borgarfulltrúar eða fjölmiðlamenn leiti svara hjá Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastjóra félagsins, um hvers vegna Carbfix telur réttlætanlegt að ráðast í ímyndarherferð um starfsemi sína – þar sem herjað er á íslenska fjölmiðlaneytendur.

Sér í lagi í ljósi þess að, þrátt fyrir háleit áform, er rekstur félagsins umsvifa lítill og það rekið með lánalínum frá móðurfélaginu. Það breytir þó ekki því að þeir sem koma að Carbfix eru stórhuga. Þannig hefur Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR, lýst því yfir að Carbfix-verkefnið muni skila borgarbúum 1.400 milljörðum á komandi áratugum – eða þriðjungi núverandi landsframleiðslu.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.