Ríkisstjórnin og helstu stuðningsmenn hennar segja farir sínar ekki sléttar af stjórnskipan landsins og því að á Alþingi sé starfandi stjórnarandstaða.

Þannig kennir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra málþófi stjórnarandstöðunnar um að strandveiðum sé lokið þetta sumarið. Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, hafa einnig lýst vanþóknun sinni á framgöngu stjórnarandstöðunnar. Samfélagsrýnirinn Egill Helgason tók í sama streng og sagði stjórnarandstæðinga hafa stöðvað fjölda góðra mála.

Staðreyndin er þó sú að ríkisstjórnin hefur dagskrárvald á þinginu en kaus að nýta það nær eingöngu til að þröngva í gegn hækkun veiðigjalda, í stað þess að freista þess að ná fleiri óumdeildari málum i gegnum þingið. Ráðherrum og stjórnarþingmönnum er tíðrætt um að meirihlutinn á þingi ráði för og virðast telja að stjórnarandstaðan eigi að vera með öllu áhrifalaus.

Hrafnarnir leggja því til að stjórnin leggi fram frumvarp á haustþingi þar sem stjórnarandstæðingar verða skikkaðir til að eyða restinni af kjörtímabilinu á Íslendinganýlendunni Tenerife.

Hægt væri að beita 71. grein þingskaparlaga til að forðast málþóf stjórnarandstöðunnar í þeim efnum.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.