„Viljandi villt“ er nýtt heiti Reykjavíkurborgar yfir verkstolið sem ríkir innan raða borgarinnar þegar kemur að því að slá grasbletti. Hjalti J. Guðmundsson, landfræðingur á umhverfissviði, hefur fengið það hlutverk að verja framtaksleysi borgarinnar í þessum efnum í fjölmiðlum, sem m.a. hefur leitt til þess að íbúar Grafarvogs fengu nóg og slógu blett á umdeildum reit þar sem borginn hyggst þétta byggð.
Annað sem vakti athygli hrafnanna tengt málefnum borgarinnar er að í nýjum fjölbýlishúsum sem reisa á í Skógarhlíð er aðeins gert ráð fyrir 66 bílastæðum fyrir 85 íbúðir en 191 hjólastæði, sem er í takt við stefnu meirihlutans í borginni um að troða Borgarlínu ofan í kokið á borgarbúum, með góðu eða illu.
Til að afstýra slíku skipulagsslysi telja hrafnarnir einsýnt að Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri beiti sér fyrir því að fá fyrrnefndan Hjalta til að stýra skipulagsmálum borgarinnar.
Hann myndi væntanlega heimfæra „viljandi villt“ stefnuna yfir í skipulagsmálin, sem fæli í sér að verktökum væri treyst sjálfum fyrir að byggja íbúðir í takt við þarfir markaðarins.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.