Íslenska fatamerkið 66°Norður hefur sett á markað sérstaka útgáfu af klassískum flíkum framleiðandans, þar sem merkinu 66 er snúið að hvolfi í 99, en það er til að fagna 99 ára afmæli fyrirtækisins.
Í línunni má finna flíkur sem flestir þekkja Vatnajökul og Snæfells-skeljarnar, ásamt hettupeysu og bolum.
Línan kemur í takmörkuðu upplagi þar sem aðeins 99 eintök voru framleidd af jökkunum og buxunum.
„Þessi sérstaka útgáfa af fatalínunni er tileinkuð daglegu lífi Íslendinga sem 66°Norður hefur verið hluti af frá 1926. Afmælislínunni hefur verið mjög vel tekið og salan hefur verið mjög góð á þessum flíkum,“ segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður.
Hans Kristjánsson frá Suðureyri við Sugandafjörð stofnaði Sjóklæðagerð Íslands í bakhúsi við Laugaveg í Reykjavík árið 1926 og var það fyrsta sjóklæðagerð landsins.
Hans fékk styrk frá Fiskifélagi Íslands til að ferðast til Noregs sumarið 1924 þar sem hann kynnti sér sjóklæðagerð.
Fyrirtækið framleiddi í fyrstu eingöngu sjóstakka úr olíubornum striga en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.