Götubitahátíðin fór fram um helgina í Hljómskálagarðinum í Reykjavík en þangað mættu tugþúsundir gesta til að smakka mat frá öllum heimshornum. Nokkur kunnuleg nöfn voru á svæðinu en sumir söluaðilar voru að prufa sig áfram á hátíðinni í fyrsta sinn.

Alma Svanhild Róbertsdóttir var ein af þeim en hún stóð vaktina við Fish and Chips-vagninn frá Selfossi sem bar hið skemmtilega nafn Codfather.

Sá vagn opnaði fyrir aðeins tveimur vikum síðan og er staðsettur á bílaplaninu við Hótel Selfoss en Alma og samstarfsfólk hennar sjá meðal annars um veitingarekstur hótelsins.

„Við vorum að rembast við að opna fyrir Kótilettuhelgina og erum nú að taka þátt í þessari hátíð í fyrsta sinn. Móttökurnar hafa verið alveg æðislegar og við erum búin að fá mikið af heimamönnum og líka ferðamönnum.“

Hún segir að nafn vagnsins hafi komið frá vini þeirra en allir réttirnir á matseðlinum eru jafnframt skírðir eftir persónum úr Godfather-kvikmyndaseríunni.

„Dirty franskarnar eru til dæmis skírðar eftir svikaranum Fredo. Svo erum við með Don-humarklemmuna og Luca Brasi-fish and chips sem er ótrúlega vinsæll en sá fiskur er einmitt raspaður í svörtu Doritos-snakki.“

Opnar hurðina fyrir öðruvísi mat

Sigurður Gunnlaugsson, betur þekktur sem Siggi Chef, var einnig viðstaddur hátíðina en hann ákvað að fara skrefinu lengra í ár og sá um tvo matvagna á sama tíma. Hann bauð upp á slider í Brixton-vagninum sínum ásamt sínu sigursæla brisketkjöti.

„Þetta er búið að vera æðislegt. Ég hélt kannski að föstudagurinn myndi vera rólegur en það er bara búið að vera stappað hérna,“ sagði Siggi á fyrsta deginum en hátíðin stóð yfir frá 18. – 20. júlí.

Hann segist njóta sín best við að gera mat yfir opnum eldi og telur að það þurfi ekki að vera með stóran matseðil á svona hátíð. Lykillinn sé frekar að gera einn ákveðinn hlut og að gera hann vel.

„Þetta er líka svo geggjað að sjá að allir útlendingarnir hérna eru komnir með matinn sinn og að þetta sé orðin almennileg götubitahátíð. Hátíðin er líka farin að opna hurðina fyrir alls konar öðruvísi mat.“

Jakob Wayne Víkingur Róbertsson, eigandi Arctic Pies, tekur í sama streng en hann hefur nú boðið upp á ástralskar bökur á Götubitahátíðinni fjögur ár í röð. Jakob, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Ástrali, segir að matarvitund Íslendinga hafi stóraukist.

„Það er ákveðinn hópur af fólki sem bara þekkir þetta allt núna og veit alveg hvað það vill. Ég hef alveg fengið nokkra sem hafa smakkað hjá mér áður og strunsa upp til mín og biðja kannski um sex nautabökur.“

Jakob hefur einnig verið að safna fjármunum inn á Carolina Fund en hann hyggst flytja starfsemi Arctic Pies úr gámnum sem hann hefur bakað í undanfarin ár í alvöru matvagn. „Vonandi gerist það á næstunni en þetta er búið að vera svo gaman og það er svo gaman að sjá fólk koma og taka þátt.“