Árið 2023 mætti kólumbíski götubitavagninn Mijita á Götubitahátíðina í Hljómskálagarðinum í Reykjavík í fyrsta sinn. Síðan þá hafa vinsældir vörumerkisins aukist töluvert og í ár seldi vagninn rúmlega eitt tonn af mat til svangra viðskiptavina.

Vagninn er í eigu Mariu Jimenez Pacifco og Raffaele Manna. Maria kom til Íslands frá Kólumbíu þegar hún var tólf ára og Raffaele er hálfur Ítali og hálfur Íslendingur en þau eiga nú von á sínu fyrsta barni í janúar á næsta ári.

Maria stóð vaktina yfir alla hátíðina og þrátt fyrir að vera komin þrjá mánuði á leið stóð hún í lappirnar í 12-14 klukkutíma á dag og afgreiddi kólumbískan mat með bros á vör.

„Ég lít bara á þetta sem ég er að gera sem menningarbrú á milli Íslands og Kólumbíu. Það er búið að taka þrjú ár að byggja hana og nú er hún loks byggð. Það er líka ástæðan fyrir því að svo mikil virðing er borin fyrir götubita því það er svo mikil sál í henni.“

Maria og Raffaele segjast sjálf vera mjög dugleg að ferðast og leitast við að fá sömu matarupplifun og viðskiptavinir þeirra fá þegar þau heimsækja Mijita.

„Við förum sjálf um allan heim og erum óhrædd við að smakka nýjan mat. Við smökkuðum til dæmis snák í Hong Kong og steiktar tarantúlur í Kambódíu. Í Jórdaníu sátum við með Bedouin-fólki og þrátt fyrir að tala ekki sama tungumál þá náðum við að tengjast bara yfir tebolla enda borðar maður alltaf með hjartanu.“

Íslendingar farnir að þekkja kólumbískan mat

Mijita hefur í gegnum árin boðið upp á hefðbundna kólumbíska rétti eins og arepas og empanadas en í ár vildu Maria og Raffaele prufa eitthvað nýtt. Þau ákváðu að bjóða upp á sérstakar kólumbískar kjötbollur sem heita Butifarra Soledeña.

Kjötbollurnar voru uppáhaldsgötubiti Mariu þegar hún var lítil stelpa en hún þurfti að reiða sig á minnið og bragðlaukana til að búa þá til. Það tók síðan fjóra daga að undirbúa réttinn þar sem framleiðsluferlið er mjög flókið.

„Butifarra eru kjötbollur sem eru búnar til úr nautahjarta og svínakjöti. Það þarf að hreinsa kjötið mjög vel áður en það er svo hakkað niður. Þegar við vorum búin að krydda kjötið tók það okkur svo tvo daga að vefja kjötbollurnar saman.“

Raffaele segir að sumir hafi verið efins um að prufa slíkt kjöt en þeir sem smökkuðu sögðu að rétturinn hafi verið mjög bragðgóður.

„Það var einn maður sem var skeptískur en ákvað samt að prufa og getur núna sagt að hann hafi smakkað hjarta og vilji kannski prufa að elda hjörtu sjálfur. Ég er hálfur Ítali og á Ítalíu heita þessir hlutar dýrsins quinto quarto, eða fimmtu/fjórðu, og eru mjög vinsælir.“

Maria segist einnig hafa séð töluverða þróun í vitund um kólumbískan mat á heimsvísu og að margar borgir í Evrópu og í Bandaríkjunum hafi til að mynda haldið götubitahátíðir sem séu aðeins tileinkaðar kólumbískum mat.

„Kólumbía er náttúrulega stórt land með 50 milljón manns og hvert einasta svæði er með öðruvísi mat og öðruvísi hitastig. Pabbi minn er til dæmis frá Bógóta og þar er mikið um ajiaco-kjúklingasúpu með kartöflum. Ég er samt alin upp við karabískan mat og finnst stundum eins og maturinn í Bógóta þurfi á smá salti og pipar að halda.“

Hún segir að heimaslóðir hennar bjóði mikið upp á ávexti en í Kólumbíu sé mikið um líffræðilegan fjölbreytileika. Allt grænmetið og uppskriftirnar breytast eftir svæðum og er til dæmis allt öðruvísi við ströndina og uppi í fjöllunum.

„Það er mikil fjölbreytni í Kólumbíu og við viljum kynna það fyrir Íslendingum. Við viljum að þeim sem koma til okkar líði eins og þeir séu komnir til Kólumbíu. Það kom líka til okkar einn sérfræðingur og spurði hvers vegna við værum svona vinsæl og ég sagði að það væri vegna þess að við erum óhrædd við að vera bæði öðruvísi og einlæg.“