Kacper Bienkowski og Michal Mazur mættu með matvagninn sinn, Turf House, á Götubitahátíðina sem fór fram um helgina í Hljómskálagarðinum í Reykjavík en þar komu hátt í 40 söluaðilar til að elda ofan í gesti hátíðarinnar.

Félagarnir eru báðir frá Póllandi en hafa búið á Íslandi í mörg ár og var hugmyndin á bak við matvagninn að gera eitthvað einstaklega íslenskt.

„Við fengum þessa hugmynd fyrir einu og hálfu ári síðan en þá var ég að reyna að sannfæra vin minn hérna um að opna matvagn með mér. Hann var smá efins þar sem hann var með fjölskyldu og vildi frekar meiri stöðugleika en á endanum ákváðum við að skella okkur á þetta og keyptum vagninn,“ segir Michal.

The Turf House opnaði formlega í september í fyrra og var hann fyrst staðsettur í Hafnarfirði. Fyrir rúmum mánuði síðan fengu þeir vinirnir svo pláss við Hallgrímskirkju og segjast hæstánægðir með það.

Kacper er sjálfur með mastersgráðu í verkfræði og Michal hefur unnið sem yfirkokkur á nokkrum veitingastöðum á Íslandi í mörg ár. Þeir náðu því að sameina krafta sína þegar ákvörðun var tekin um að hanna matvagn sem væri eins og torfhús í laginu.

Vagninn býður bæði upp á íslenska kjötsúpu og sjávarréttasúpu en flaggskipsrétturinn er án efa lambahamborgarinn sem er borinn fram í svörtu brauði með íslensku smælki.

„Við erum að reyna að styðja við íslenskan mat og íslenska menningu. Við höfum báðir búið á Íslandi í mörg ár og vildum gera eitthvað sem væri bæði gott og íslenskt, og hvað er íslenskara en lambakjöt og fiskur?“