Stefnt er á að mathöllin í gamla Pósthúsinu að Pósthússtræti 5 í miðbæ Reykjavíkur opni í lok október eða byrjun nóvember. Þetta segir Leifur Welding, einn eigenda mathallarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Upphaflega var stefnt á að opna mathöllina síðasta vetur en töf hefur orðið á því. Að sögn Leifs eiga tafirnar sér margþættar skýringar. „Það geta alls kyns hlutir komið upp þegar það er nánast verið að endursmíða svona gamalt hús. Þetta er mun flóknara verkefni en þegar um nýbyggingu er að ræða.“

Að auki hafi ýmsar tafir komið upp við framleiðslu á stáli og öðrum hráefnum vegna Covid-19 faraldursins sem og innrásar Rússa í Úkraínu. Hökt í aðfangakeðjum vegna fyrrgreindra þátta hafi einnig orsakað tafir. „En nú sér fyrir endan á þessu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.