Stórglæsileg 704 fermetra villa við Bagsværdvatn, þekkt sem Villa Tusculum, hefur verið seld fyrir 75 milljónir danskra króna, um 1,4 milljarða íslenskra króna.
Um er að ræða ein stærstu fasteignaviðskipti ársins í Danmörku, að því er fram kemur í frétt danska fjölmiðilsins Boliga.
Villan stendur við Nyborgsvej 375 í Kongens Lyngby, umlukin náttúru og með útsýni yfir vatnið.
Hún státar af 130 metra einkaströnd, sem gerir staðsetninguna enn eftirsóknarverðari. Næsti nágranni er forsætisráðherrabústaðurinn Marienborg.
Villa Tusculum var reist árið 1882 og hefur staðið í yfir 140 ár við þetta vinsæla náttúrusvæði í útjaðri Kaupmannahafnar.
Fasteignasalan Ivan Eltoft Nielsen sá um söluna en eignin hafði verið á sölu í um tvö ár.

Seljendur eignarinnar eru danski auðjöfurinn Lars Kolind og eiginkona hans Vibeke Wesarg Riemer, sem keyptu villuna árið 2013 fyrir 45,5 milljónir danskra króna samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá.
Þau hagnast því um tæpar 30 milljónir DKK á eigninni en ekki er búið að opinbert hver keypti eignina.
Kaupandinn mun njóta 14 herbergja á samtals 704 fermetrum, auk þess sem lóðin sjálf er 4.108 fermetrar að stærð.
Fleiri dýrmæt fasteignaviðskipti hafa átt sér stað í Danmörku á árinu.
Í febrúar seldi milljarðamæringurinn Karsten Ree höll sína við Vedbæk Strandvej fyrir 130 milljónir danskra króna, en um er að ræða stærstu fasteignaviðskipti ársins í Danmörku.
Í apríl seldi forstjóri skartgriparisans Pandora, Alexander Lacik, strandvillu sína í Vedbæk fyrir 68,5 milljónir danskra króna.
Forvitnilegustu fasteignaviðskiptin, samkvæmt Børsen, voru þó þegar 20 fermetra sumarhús á eynni Møgelø í miðju vatninu Julsø í Silkeborg var selt fyrir 2,7 milljónir danskra króna.
