Fyrirtækið Moganshan Group var stofnað af Kínverjunum Mu Lin og Wang Yang en draumur þeirra var að sameina náttúruupplifun við hina sífellt vaxandi kaffimenningu í Kína.

Hugmyndin var að starfrækja kaffihús í náttúruperlum Zhejiang-héraðs ásamt því að notast aðeins við færanleg húsgögn og lýsingu til að hafa sem minnst áhrif á umhverfið.

Þann 20. apríl á þessu ári varð draumur þeirra að veruleika með opnun Gleam Coffee-kaffihússins við Tonguan-fjall í Zhejiang-héraði. Með því vildu eigendur hjálpa til við að skapa nýja tegund af ferðamennsku í kínverskri náttúru.

Blaðamanni Viðskiptablaðsins var nýlega boðið að fá sér tíu dropa á þessu nýja kínverska kaffihúsi og sötra bollann sinn inni í helli sem horfir yfir foss og grænt landslag.

Eftir nokkurra mínútna skutl frá fjallsrótum Tonguan mæta viðskiptavinir í nokkur hundruð metra hæð þar sem þeir geta pantað sér kaffi eða te áður en haldið er inn í hellinn þar sem finna má sæti og borð með guðdómlegu útsýni.

Gestir panta sér kaffi og aðra drykki áður en þeir ganga inn í hellinn.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Kaffihellirinn býður upp á mörg útisvæði sem eru tengd í gegnum göng en hellirinn var áður fyrr notaður sem koparnáma. Þegar komið er á leiðarenda á hverju horni ganganna blasa við ýmiss konar listaverk.

Eigendur voru aðeins 29 daga að byggja kaffihúsið og útiaðstöðuna en framkvæmdir hófust þann 20. mars sl. og luku svo þann 19. apríl. Opnað var síðan fyrir gesti einum degi seinna og hafa eigendur séð stöðugan straum ferðamanna undanfarna mánuði.

Mu Lin, ein af eigendum Gleam Coffee, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kaffihúsið hafi tekið á móti 400 gestum fyrsta daginn og að 60% þeirra hafi komið frá Shanghai, Hangzhou og öðrum nærliggjandi borgum.

„Innan við tíu daga frá opnun höfðum við svo tekið á móti sex þúsund gestum og þénað meira en 300 þúsund júan í tekjur (e. 5,1 milljón króna). Við búumst núna við að tekjur fyrir þetta ár fari vel yfir átta milljónir júana (e. 140 milljónir króna).“

Hellirinn var áður fyrr notaður sem koparnáma en hýsir nú kaffihús með frábæru útsýni.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Kaffihúsið hefur einnig haft góð áhrif á þorpið sem liggur við rætur fjallsins en það þorp hefur þegar þénað meira en 350 þúsund júan (e. 5,9 milljónir króna) með uppbyggingu á bílastæði og annarri tengdri þjónustu.

Hún bætir við að hellirinn hafi einnig tekið á móti 3.000 gestum þann 1. maí en það er vinsæll frídagur hjá Kínverjum. Það hefur þá verið mikið að gera hjá starfsmönnum kaffihússins. Samkvæmt rannsóknarfyrirtækinu iiMedia Research er búist við því að kaffisala í Kína muni nema billjón júana á þessu ári, eða um 17 milljörðum króna.