Ísak Ernir Kristinsson var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Tæki.is en það félag sérhæfir sig í tækjaleigu til fyrirtækja og einstaklinga. Tæki.is var meðal annars á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á lista Creditinfo árið 2023.
Áður en Ísak tók við nýju stöðunni starfaði hann hjá ræstingar- og fasteignaumsjónarfyrirtækinu Dögum. Þar hafði hann unnið síðan 2021, síðast sem fjármálastjóri. Þar áður vann hann hjá Securitas sem stjórnandi mannaðrar þjónustu á Keflavíkurflugvelli og sat einnig í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, á árunum 2018-2024.
„Þegar ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja var ég ekki alveg ákveðinn hvert stefna skyldi. Ég hóf störf í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli og var þar í um ár. Samhliða því tók ég virkan þátt í félagsmálum í heimabænum og varð meðal annars varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ,“ segir Ísak.
Hann hafði þá mikinn áhuga á samfélagsmálum og gerðist síðar varaþingmaður Suðurkjördæmis í eitt kjörtímabil. Ísak skráði sig jafnframt í stjórnmálafræði en áttaði sig fljótlega á því að sú leið hentaði honum ekki.
Nánar er fjallað um Ísak í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.