HS Veitur hafa ráðið Ingu Láru Jóns­dóttur sem fram­kvæmda­stjóra nýs sviðs þjónustu og snjallra lausna. Ráðningin er liður í skipu­lags­breytingum sem tóku gildi um síðustu áramót og markar jafn­framt tíma­mót í sögu fyrir­tækisins: Í fyrsta sinn verður jafnt kynja­hlut­fall í fram­kvæmda­stjórn HS Veitna.

Nýja sviðið hefur það að mark­miði að efla þjónustu og styðja við stafræna um­breytingu HS Veitna, sem þjónustar rúm­lega 92 þúsund íbúa og fjölda stór­fyrir­tækja á veitu­svæði sínu. Fyrir­tækið er þekkingar- og þjónustu­fyrir­tæki sem sinnir rekstri sam­félags­lega mikilvægra inn­viða á sviði veitu­starf­semi.

Inga Lára er við­skipta­fræðingur með MS-gráðu í for­ystu og stjórnun og býr að víðtækri reynslu úr at­vinnulífinu. Hún starfaði síðast sem úti­bús­stjóri hjá Secu­ritas á Reykja­nesi frá árinu 2022, þar sem hún bar ábyrgð á rekstri úti­búsins í heild. Áður sinnti hún starfi markaðs­stjóra hjá Lagardère.

Í nýju hlut­verki sínu mun hún leiða teymi sem ber ábyrgð á þjónustu við við­skipta­vini og þróun snjallra lausna.

Það fylgja bæði tækifæri og áskoranir breytingum sem þessum, en ég er algjörlega sannfærð um að í sameiningu eigum við eftir að efla sviðið og veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu. Ég er mikil keppnismanneskja og hef brennandi áhuga á tækniframförum og stjórnun – sérstaklega þjónustustjórnun. Því er ég full tilhlökkunar að leggja mitt lóð á vogarskálarnar og leiða frábært teymi þjónustu og snjallra lausna hjá HS Veitum áfram veginn á þessum spennandi tímum,“ segir Inga Lára Jónsdóttir.

Við erum virkilega ánægð með að fá Ingu Láru til liðs við okkur. HS Veitur reka samfélagslega mikilvæga innviði sem færa viðskiptavinum lífsgæði. Í kjölfar stefnumótunarvinnu á síðasta ári var tekin ákvörðun um að gera þjónustu við viðskiptavini hærra undir höfði með því að stofna sérstakt svið utan um þessa einingu. Inga Lára hefur fengið það verðuga verkefni að móta þetta nýja svið og leiða teymi þjónustu og snjallra lausna,“ segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna.