Jón Ingi Þrastarson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa. Hann situr í framkvæmdastjórn félagsins og kemur í stað Gísla Þórs Arnarsonar sem lét af störfum hjá félaginu í vor.
Jón Ingi hefur starfað hjá Samskipum frá árinu 2013. Hann hefur um árabil starfað hjá Samskipum í Rotterdam í Hollandi. Þar stýrði hann lengi þjónustu Samskipa við íslenska markaðinn og Færeyjar, en síðustu ár hefur hann verið forstöðumaður Global Forwarding.
„Nú er vistaskiptum Jóns Inga lokið en fyrstu vikurnar var hann með annan fótinn í Rotterdam. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn heim og hlökkum til að vinna að því með honum að efla innanlandsflutninga framtíðarinnar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi.
Jón Ingi lauk Executive MBA námi við Rotterdam School of Management á síðasta ári, en hann er einnig með BA-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst frá 2012.
„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða við að byggja upp sterkt innanlandskerfi Samskipa sem þjónar viðskiptavinum enn betur með skýrri framtíðarsýn, auknu þjónustustigi og sterkari tengingu við alþjóðlegar lausnir fyrirtækisins,“ segir Jón Ingi Þrastarson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa.