Kristín Hildur Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Frama og hefur hún þegar hafið störf. Frami var stofnaður árið 2019 og býður í dag upp á yfir 30 námskeið og 400 fyrirlestra frá fjölbreyttum hópi fólks.

Hún mun koma til með að leiða uppbyggingu félagsins og styðja við vöxt þess með áherslu á gerð og miðlun námsefnis.

Kristín kemur til Frama frá Íslandsbanka þar sem hún starfaði sem fræðslustjóri bankans en þar áður leiddi hún vöruþróun fyrir ungt fólk og fjárfestingar. Hún hóf störf hjá bankanum árið 2022 og var þar á undan hjá Deloitte á sviði viðskiptalausna og hjá Eimskipum í fjárstýringu.

„Ég er að koma til Frama núna beint eftir fæðingarorlof og á mjög spennandi tíma hjá fyrirtækinu. Það er nú þegar komið vel af stað og er með stórkostlegan hóp af kennurum en það er samt mikil þróun að eiga sér stað ásamt fjölmörgum vaxtartækifærum.“

Kristín er með BS-gráðu í hagfræði og MS-gráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands. Eftir menntaskóla hafði hún verið á báðum áttum með að fara annaðhvort í viðskiptafræði eða verkfræði en ákvað á endanum að hagfræði væri ágætis millivegur.

„Svo fékk ég vinnu hjá Deloitte áður en ég fór í mastersnám en ég hafði alltaf hugsað mér að fara erlendis í það nám. Það getur hins vegar verið erfitt að segja skilið við föst laun og á sama tíma skall Covid á svo ég ákvað að klára mastersnámið hérna heima.“

Kristín þekkir vel til fjármálaheimsins en hún er jafnframt meðeigandi Fortuna Invest, meðhöfundur bókarinnar Fjárfestingar og sá um hlaðvarpsþáttinn Vaxtarverkir með vinkonu sinni, Brynju Bjarnadóttur, þar sem þær ræddu saman um fjármálaheiminn á mannamáli.

„Í vetur skráðum við okkur svo í frumkvöðlakeppni Gulleggsins með hugmynd að foreldraappi sem við kölluðum SamFam. Við höfðum ekki farið langt með hugmyndina á þeim tíma en komumst hins vegar í topp tíu hópinn með öðrum frumkvöðlum og var það mjög góð reynsla.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.