Konur hafa lengi verið í miklum minnihluta meðal forstjóra á Íslandi, þrátt fyrir mikla menntun, starfsreynslu og jafnréttislöggjöf. Ný rannsókn eftir Hrefnu Guðmundsdóttur, Þóru Christiansen og Ástu Dís Óladóttur þar sem rætt var við reynda ráðgjafa sem komið hafa að ráðningu fjölmargra forstjóra bendir til þess að vandinn liggi oft í ráðningarferlinu sjálfu en ferlið er oft lokað, ógagnsætt og íhaldssamt.
Ásta Dís Óladóttir, prófessor og stofnandi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, bendir á að konur komist oft ekki að af ýmsum ástæðum og þess í stað snúist sömu karlarnir í hringekju milli stóla, eins og einn ráðgjafi sem rætt var við í rannsókninni orðaði það.
Til að brjóta upp gamla menningu og tryggja jafnrétti í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum þurfi að grípa til aðgerða og byrja þar sem valið er mótað.
Hægt sé að grípa til ýmissa aðgerða en vænlegustu breytingarnar felist í markvissri endurskoðun á vinnubrögðum stjórna, stjórnenda og ráðgjafa, með áherslu á gagnsæi, auglýsingar lausra starfa, skýr hæfniviðmið og markmið um fjölbreytileika.
„Eins og áhrifakonur bentu á í fyrri rannsókn er mikilvægt að stjórnir „standi í lappirnar“ þegar kemur að ráðningu forstjóra og beiti sér fyrir breytingum, ekki aðeins konurnar í stjórnum, heldur allir stjórnarmenn,“ segir Ásta Dís.
„Hins vegar sýna rannsóknir okkar að ákvarðanir eru oft teknar utan stjórnarfunda og byggðar á tengslanetum karla. Slíkt vinnulag útilokar konur áður en þær fá raunverulega tækifæri til að koma til greina. Það þarf kerfislægar úrbætur og samstillt átak til að rjúfa vítahringinn því hringekjan stöðvast ekki af sjálfu sér.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.